Innlent

Óhreinsuðu skólpi sleppt í sjó við Faxaskjól næstu daga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skólphreinsistöðin við Faxaskjól.
Skólphreinsistöðin við Faxaskjól. Vísir/Vilhelm
Vegna viðhalds á skólpdælustöð við Faxaskjól verður óhreinsuðu skólpi sleppt í sjó við stöðina alla næstu viku eða dagana 20.-27. nóvember. Almenningur er því beðinn um að halda sig fjarri sjónum við Faxaskjól í vikunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.

Endurnýja á undirstöður sem skólpdælurnar hvíla á en þetta er í fyrsta skipti síðan dælustöðin var gangsett árið 1992 sem það er gert.  Til þess að verkið gangi eins hratt fyrir sig og mögulegt er verður unnið á vöktum allan sólarhringinn.

„Við minnum á að í gegnum fráveitukerfið fer allt það sem sturtað er niður í klósett sem og vatn frá sturtum, baði, vöskum, þvottavélum og öðrum heimilistækjum sem nota heitt eða kalt vatn,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta fer óhreinsað í sjó á meðan dælustöðin er óvirk, þ.m.t. rusl eins og eyrnapinnar, blautþurrkur, smokkar, tannþráður og dömubindi, sem eiga auðvitað aldrei að fara í klósettið heldur beint í almennt sorp.“

Þá er ekki mælst til þess að fólk sé í eða við sjóinn í nálægð við dælustöðina á meðan ástandið varir. Skilti verða sett upp við dælustöðina í aðvörunarskyni og þá verður einnig fylgst sérstaklega með fjörum í kringum stöðina.

Send hefur verið tilkynning um viðhald stöðvarinnar til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem sér um vöktun á mengun í strandsjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×