Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍBV 30-31 | Teitur fékk rautt þegar ÍBV endaði sigurgöngu Selfssliðsins

Gabríel Sighvatsson skrifar
Theodór Sigurbjörnsson skoraði 7 mörk í dag
Theodór Sigurbjörnsson skoraði 7 mörk í dag Vísir/Andri Marinó
Það var toppslagur í 8. umferð Olís-deildar karla í kvöld þegar Selfoss og ÍBV mættust í Vallaskóla.

Eins og við var að búast var þetta hörkuleikur allt til enda, þar sem hvorugt liðið gaf eftir. Á endanum voru það gestirnir sem fóru heim með stigin tvö eftir eins marka sigur 31-30.

Þetta hefði getað fallið hvoru megin sem var en Selfoss átti allt eins erindi í stigin í dag.

Af hverju vann ÍBV?

Það var mikill kraftur í Eyjaliðinu og þeir ætluðu sér alltaf þennan sigur. Þeir voru góðir allan leikinn og voru mestmegnis yfir í leiknum. Þeir fengu nokkur tækifæri til að stinga Selfyssinga af en gáfu þeim of oft tækifæri á að koma sér aftur inn í leikinn.

Vendipunktur var þegar Teitur Örn Einarsson var rekinn af velli á 54. mínútu en hann átti að hafa kýlt Grétar Þór Eyþórsson í magann. Leikmenn ÍBV voru búnir að vera duglegir við að láta sig falla við mismiklar snertingar og enginn í Selfoss liðinu mun segjast hafa verið sáttur með dómarann í kvöld.

Hvað gekk illa?

Það fyrsta sem kemur til hugar er markvarsla Selfoss. Hún datt aðeins inn í lokin þegar Helgi Hlynsson kom aftur í markið undir lokin á meðan Eyjamenn voru allan tímann með Aron Rafn í rammanum.

Annars er ekki mikið hægt að setja út á liðin, þau voru bæði með góða sókn, þó er alltaf hægt að gera betur í varnarleiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og áður sagði var markvarsla ekki aðalatriðið í kvöld. Agnar Smári Jónsson var markahæstur í liði gestanna með heil 13 mörk og þá var Theodór Sigurbjörnsson iðinn við kolann eins og vanalega, með 8 mörk en hefði komist upp í tveggja stafa tölu hefði hann nýtt öll vítin sín.

Haukur Þrastarson og Teitur Örn Einarsson voru markahæstir í liði Selfoss með 7 mörk hvor og munaði um Teit þessar lokamínútur sem þeir voru án hans.

Hvað gerist næst?

ÍBV fer upp í 12 stig og er komið tveimur stigum fram úr grönnum sínum. Þeir taka á móti toppliði FH í næsta leik í risaleik. Selfoss sækir lánlaust lið Gróttu heim á sama tíma.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var að vonum svekktur með úrslit kvöldsins.

„Manni líður alltaf illa eftir tap en ég er ánægður með frammistöðuna og baráttuna. Við vorum alveg á fullu og vorum inni í þessum leik.“

Patrekur setti út á frammistöðu dómaranna og það er hægt að segja að það hafi hallað aðeins á heimamenn í dag.

„Maður þarf bara að kíkja á þetta, mér fannst nokkrir dómar skrýtnir. Eyjamenn eru frábærir og eru með nokkra einstaklinga sem geta skorað mörk upp úr engu. Við hefðum kannski átt eitt stig skilið og svekkjandi að ná því ekki, en ég er mjög ánægður með hvernig við lögðum okkir allir í þennan leik.“

„Mér fannst dómararnir virka pínu þreyttir. Þeir voru að dæma í gær og ég held það sé mikið álag á dómurunum. Þetta eru fínir dómarar en þeir virkuðu frekar þreyttir. Kannski hallaði á bæði lið en mér fannst nokkrir dómar mjög skrítnir. Ég kíki á þetta eftir leik, það er álag á þeim eins og okkur.“

Elvar Örn Jónsson var ekki með Selfossi í dag og sagði Patrekur að liðsheildin væri mjög sterk en það hafi samt munað um hann.

„Elvar Örn er frábær leikmaður og það vita það allir. Það hefði verið gott að hafa hann og Guðna sem er líka meiddur. Strákarnir stóðu sig vel, þetta er sterk liðsheild og við sýndum það í dag, þetta hefði alveg getað dottið með okkur.“

Arnar Pétursson var hinsvegar kátur með sigurinn.

„Ég er mjög sáttur með punktana og spilamennskuna lengst af. Við vorum flottir í dag á móti sterku Selfoss liði. Þetta eru flottir strákar og það er mjög erfitt að koma hingað og sækja sigur sem við gerðum.

„Ef ég á að vera ósáttur við eitthvað, þá vorum við að hleypa þeim of oft inn í leikinn aftur þegar við vorum 2-3 mörkum yfir. Við þurfum að gera betur í þeim efnum og þá höfðum við slitið okkur fyrr frá þeim en... tveir punktar og ég er mjög ánægður með það.“

Arnar var spurður út í ummæli Patreks, þar sem hann sagði að dómararnir hefðu virkað þreyttir.

„Nei nei, mér fannst þeir bara heilt yfir dæma mjög vel. Auðvitað gera þeir mistök eins og við þjálfararnir og leikmennirnir. Þetta var nokkuð jafnt farið með bæði lið og það var sama lína báðum megin eins og maður vill hafa það.“ sagði Arnar að lokum.

Agnar Smári Jónsson var markahæstur í liði Eyjamanna með 13 mörk. Hann var að sjálfsögðu ánægður að leikslokum.

„Frábær sigur og frábær liðsheild. Við gerum okkur þetta dálítið erfitt með því að vinna þetta með einu en það var liðsheildin sem skóp þennan sigur, allir voru frábærir.“

Eyjamenn voru mestmegnis yfir í leiknum en Selfyssingar náðu alltaf að komast aftur inn í leikinn.

„Við náðum aldrei að slíta þá frá okkur. Ég hef ekki skýringu fyrir því. Við vorum að fá klaufskar tvær mínútur og vorum nokkuð óagaði þegar við vorum einum færri í sókninni.“

Það var mikil harka í leiknum eins og oft þegar þessi lið mætast.

„Er þetta ekki bara svokallaður Suðurlandsskjálfti?“ sagði Aggi glettinn.

„Ég hefði aldrei getað þetta nema með gæjana við hliðina á mér. Þegar maður skorar þá er alltaf einhver annar sem er að búa það til og liðsfélagarnir fá kredit fyrir það að gera mig góðan í dag. Sagði Aggi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira