Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Víkingur 25-19 | Tveir sigrar í röð hjá Mosfellingum

Benedikt Grétarsson skrifar
Vísir/Ernir
Afturelding vann annan leik sinn í röð í Olísdeild karla í handbolta þegar Mosfellingar unnu 25-19 sigur geg Víkingi. Staðan í hálfleik var 11-7. Afturelding er þar með komin með fimm stig að loknum átta leikjum en Vikingar eru sem fyrr í basli í neðri hlutanum með tvö stig. Birkir Benediktsson skoraði 6 mörk fyrir Aftureldingu en markahæstur í liði Víkings var Jón Hjálmarsson með 4 mörk.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum og tók þessar myndir hér fyrir ofan og neðan.

Bæði liðin hafa verið í basli í vetur og áttu fyrir leik samtals aðeins einn sigur í 14 leikjum. Afturelding er þó með sterkan leikmannahóp og staða liðsins kannski ekki alveg í samræmi við gæðin. Það tók Mosfellinga reyndar dágóðan tíma að ná tökum á þessum leik en þeir voru þó komnir með fimm marka forystu eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Staðan í hálfleik var 11-7 Aftureldingu í vil en gestirnir geta þakkað markverðinum Davíð Svanssyni að útlitiuð var ekki dekkra en raun bara vitni.

Munurinn jókst svo jafnt og þétt í seinni hálfleik og mest náðu heimamenn átta marka forskoti í stöðunni 20-12. Varnarleikur Víkinga var reyndar ágætur en sóknin hrein hörmung og Afturelding gekk á lagið.

Ágætur lokasprettur Víkings kom muninum niður í þrjú mörk en Afturelding fór ekki á taugum og landaði að lokum sanngjörnum sex marka sigri.

Af hverju vann Afturelding leikinn?

Það þarf ekki alltaf að vera með MA-gráðu í handboltafræðunum til að sjá hvaða atriði skilja á milli sigurs og ósigurs. Það á einmitt við um þennan leik. Afturelding er með sterkari leikmenn í öllum stöðum á vellinum og það hefði í raun verið stórar fréttir ef liðið hefði EKKI unnið þennan leik. Víkingar börðust vel og reyndu sitt besta en betra liðið vann.

Hverjir stóðu upp úr?

Lárus Helgi Ólafsson lék vel í marki Aftureldingar, ekki síst í fyrri hálfleik þegar kappinn var með 59% markvörslu. Markmenn Mosfellinga hafa fengið nokkra gagnrýni í vetur en í þessum leik var búrinu lokað á réttum tímum. Gestur Ólafur Ingvarsson byrjaði leikinn í hægra horninu og lék ágætlega en Árni Bragi Eyjólfsson leysti hann svo af í seinni hálfleik og lék sömuleiðis ágætlega..

Davíð Svansson var sínum gömlu félögum erfiður í marki Víkings. Davíð var sérstaklega lunkinn að taka dauðafæri en það hefur reyndar verið hans aðalsmerki í gegnum árin. Jón Hjálmarsson er leikmaður sem reynir í 60 mínútur og hann átti kraftmikla spretti, þó að stundum vanti örlítið upp á skynsemina.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var mjög stirður á löngum köflum. Varnarleikur og markvarsla spilar þar auðvitað stóra rullu en bæði lið geta betur í sókninni. Víkingum gekk bölvanlega að koma boltanum á Ægi Hrafn á línunni og munar um minna.

Hvað gerist næst?

Afturelding heldur í stutt ferðalag í Grafarvoginn og mæta þar nýliðum Fjölnis. Það ætti að vera hörkuleikur en Fjölnismenn hafa verið öflugir á heimavelli í vetur og sýnt fína takta. Afturelding stefnir hins vegar á þriðja sigurinn í röð.

Víkingar reyna að landa sínum fyrsta sigri í vetur en þeirra bíður erfitt verkefni gegn sterku Haukaliði. Víkingar þurfa að bæta sóknarleikinn ef þeir ætla að eiga eitthvað í lærisveina Gunnars Magnússonar.

Einar Andri: Davíð reyndist okkur erfiður

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, hefur átt erfiðan vetur ásamt sínum mönnum og honum var létt í leikslok.

„Þetta var virkilega mikilvægur sigur fyrir okkur og við spiluðum hörku varnarleik allan leikinn. Strákarnir voru að leggja sig fram og ég var bara ánægður með þá í kvöld.“

Eitthvað sem ekki var að ganga vel?

„Sóknarleikurinn var þunglamalegur á köflum en við skilum samt 25 mörkum, sem er ásættanlegt. Davíð var líka að reynast okkur erfiður í markinu. Hann tók einhver 11 skot í fyrri hálfleik, þar af tvö af línu og 3-4 dauðafæri úr hornunum. Hann gerði okkur lífið leitt en heilt yfir er ég sáttur við sóknina.“

Markverðir Aftureldingar hafa legið undir gagnrýni í vetur en Lárus Helgi Ólafsson lék virkilega vel í kvöld og varði 16 skot. Einar var að vonum sáttur við sinn mann í rammanum.

„Lalli var frábær í kvöld og var líka frábær í síðasta leik. Báðir markverðirnir mínir eru að leggja hart að sér og eiga mikið inni. Núna er Lalli byrjaður að sýna sínar bestu hliðar og ég er ánægður með það.

Við eigum Fjölni næst í deildinni á sunnudaginn eftir viku o gþað verður mjög mikilvægur leikur fyrir okkur. Svo eigum við í millitíðinni stórleik í bikarnum gegn ÍBV, reyndar gegn b-liði ÍBV en það verður örugglega erfitt að eiga við þá.“

Afturelding hefur nú unnið tvo leiki í röð og safnar stigum hægt og bítandi.

„Eins og við höfum sagt áður, þá höfum við verið að spila þokkalega. Við höfum í raun spilað betur en í kvöld og líka í síðasta leik gegn Gróttu en við vinnum þesssa leiki og nú er bara að halda áfram á sömu braut,“ sagði Einar Andri og hélt út í storminn.

Gunnar: Afskaplegir klaufar



„Mér fannst við vera að spila fínan varnarleik og Davíð var frábær í markinu. Þessir hlutir voru jákvæðir hjá okkur í kvöld en að sama skapi vorum við afskaplegir klaufar í sókninni. Þar nýtum við ekki hraðaupphlaupin nægjanlega vel þegar við vinnum boltann trekk í trekk með vörn og markvörslu. Við erum bara of hægir sóknarlega,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings eftir tapið gegn Aftureldingu.

Það voru jákvæðir punktar í leik Víkinga að mati Gunnars.

„Að fá á sig 25 mörk í nútíma handbolta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Við þurfum samt greinilega að lækka þá tölu því að við erum ekki að ná henni sjálfir sóknarlega. Meira að segja þegar við bætum við aukamanni í sóknina, þá eigum við í erfiðleikum með að komast í færi. Menn eru bara of hægir á fótunum.“

Er þjálfarinn þokkalega ánægður með þá tvo punkta sem liðið hefur fengið hingað til eða áttu men von á betri árangri?

„Auðvitað vonuðumst við eftir betri uppskeru en við vissum líka að þetta yrði mjög erfiður vetur. Þetta verður erfitt áfram en það þýðir ekkert annað en að halda ótrauðir áfram. Það styttist í fyrsta sigurinn. Það er mikið af ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í efstu deild en þeir eru samt betri en það sem þeir hafa sýnt. Það vantar meiri áræðni, sérstaklega sóknarlega,“ sagði fyrrverandi landsliðskempan Gunnar Gunnarsson að lokum.

vísir/eyþór
Gunnar Gunnarsson.Vísir/Ernir
Einar Andri Einarsson.Vísir/Ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira