Handbolti

Hátt í fjörutíu mínútna bið eftir sjúkrabíl á Ásvöllum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vísir
Hlé hefur verið á leik Hauka og ÍBV í Olís deild kvenna í hátt í 40 mínútur þar sem Þórhildur Braga Þórðardóttir liggur meidd á vellinum og beðið er eftir sjúkrabíl á svæðið.

Þórhildur Braga fékk högg aftan á hnakka á 33. mínútu leiksins og var hann réttilega stöðvaður svo hún gæti fengið aðhlynningu.

Fljótlega kom í ljós alvarleiki málsins, en þegar átti að færa hana yfir á börur þá var hætt við það þar sem starfsmenn þorðu ekki að hreyfa við henni.

Svo virðist sem erfiðlega gangi að fá sjúkrabíl að Ásvöllum vegna slæms veðurs sem geisar yfir höfuðborgasvæðið. Samkvæmt heimildum Vísis hefur auka vakt verið kölluð út til þess að reyna að koma Þórhildi sem fyrst á sjúkrahús.

Aðrir leikmenn eru að reyna að halda sér heitum á meðan á biðinni stendur, en staðan í leiknum var 15-10 fyrir Hauka.

Uppfært klukkan 21:39: Sjúkraflutningamenn komu á svæðið nú rétt í þessu, fjörutíu mínútum eftir að Þórhildur meiddist. Hún var færð á börur fimm mínútum seinna og leikurinn fór þá aftur í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×