Innlent

Nýkjörinn þingmaður þarf að endurgreiða örorkubæturnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson, öryrki og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, öryrki og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, öryrki og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi, kveðst munu þurfa að endurgreiða þær örorkubætur sem hann hefur fengið á árinu nú þegar hann er orðinn þingmaður.

Er þetta vegna reglna Tryggingastofnunar um endurreikninga og uppgjör en Guðmundur ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar gagnrýndi hann ósamræmi og mismunun milli bótakerfa þegar kæmi að endurgreiðslum og sagði meðal annars:

„Ef atvinnulaus fær vinnu þá þarf hann ekki að borga atvinnuleysisbæturnar til baka sem hann er búinn að fá. Ef öryrki fer að vinna þá þarf hann að borga til baka til Tryggingastofnunar allt sem hann hefur fengið frá Tryggingastofnun. [...] Það sem ég skil ekki er af hverju það var ekki samið fyrir okkur? Er það af því að við erum veikt og slasað fólk? Er hægt að bjróta á okkur? Það er þetta sem ég er alltaf að mótmæla að það sé svona rosalega mismunun og það sé verið að lemja á þeim sem síst skyldi sem geta ekki varið sig.“

Guðmundur var þá spurður að því hvort að það væri svo að þegar hann tæki sæti á Alþingi þá þyrfti hann að borga Tryggingastofnun til baka.

„Já, ég þarf að borga nokkur hundruð þúsund til baka. Allt þetta ár sem ég hef fengið frá þeim,“ sagði Guðmundur en viðtalið við hann í Bítinu í morgun má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×