Enski boltinn

Þóttist vera allt annar í símtalinu sem fékk Sir Alex til að koma til Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og Martin Edwards.
Sir Alex Ferguson og Martin Edwards. Vísir/Getty
Þessa dagana er liðið 31 ár síðan að Sir Alex Ferguson tók við liði Manchester United og hóf vegferðina að gera félagið að því sigursælasta í enska fótboltanum.  Þessi ráðning er því ein sú mikilvægast í sögu enska fótboltans.  

Að þessu tilefni var þáverandi stjórnarformaður Manchester United, Martin Edwards, tekinn í viðtal í netþættinum The Warm Down þar sem Edwards sagði frá því hvernig hann fékk Sir Alex Ferguson til Manchester á sínum tíma.

Sir Alex Ferguson var þá knattspyrnustjóri skoska félagsins Aberdeen og hafði unnið  ellefu titla með félaginu frá 1979 til 1986 þar á meðal Evrópukeppni bikarhafa vorið 1983.

Þegar Manchester United rak Ron Atkinson í nóvember 1986 þá var ákveðið að Martin Edwards myndi heyra hljóðið í Alex Ferguson.

„Augljóslega gat ég ekki tekið upp símann og hringt í ritarann hjá Aberdeen, kynnt mig sem Martin Edwards og spurt hvort ég mætti tala við Alex Ferguson,“ sagði Martin Edwards en á þessum tíma voru engir farsímar til.

„Einn af stjórnarmönnunum kom með þá hugmynd að taka upp skoskan hreim og segja að ég væri umboðsmaður Gordon Strachan eða endurskoðandi,“ sagði Martin Edwards.

„Um leið og ég náði tali af Alex spurði ég hann hvort það væri þess virði fyrir okkur að koma í heimsókn og ég fékk strax réttu straumana frá honum,“ sagði Edwards.

„Við ákváðum að hittast þarna strax um kvöldið. Þetta var áður en Ron var rekinn. Það var samt enginn óskalisti en ég hafði hitt Alex þegar við gengum frá kaupunum á Gordon Strachan,“ sagði  Edwards.

Viðtalið við Martin Edwards í The Warm Down netþættinum má finna allt hér fyrir neðan.





Þetta símtal breytti heldur betur knattspyrnusögunni á Englandi.

Manchester United var níu meistaratitlum á eftir Liverpool (7-16) þegar Sir Alex tók við en liðið vann Englandsmeistaratitilinn alls þrettán sinnum undir stjórn Skotans og komst þar með upp í efsta sætið yfir sigursælasta lið Englands.

United vann alls 38 titla á 26 árum undir stjórn Sir Alex Ferguson þar af Meistaradeildina tvisvar og enska bikarinn fimm sinnum.

Sir Alex Ferguson þegar hann var kynntur sem stjóri Manchester United árið 1986.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×