Enski boltinn

Klopp biður menn aðeins um að slaka á og ekki búast við of miklu af landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, biðlar til enskra fjölmiðlamanna að tapa sér nú ekki alveg yfir frammistöðu enska landsliðsins í leikjunum á móti Þýskalandi og Brasilía, sama hvort þeir ensku sigri eða tapi.

Lærisveinar Gareths Southgates fá tvö bestu lið heims samkvæmt FIFA-listanum í heimsókn á Wembley en leikirnir fara fram á föstudaginn og á þriðjudaginn í næstu viku. Þeir eru augljóslega hluti af undirbúningi Englands fyrir HM í Rússlandi.

Þrátt fyrir að aðeins sé um vináttuleiki að ræða er spenna fyrir leikjunum þar sem Southgate er aðeins búinn að yngja upp í hópnum. Hann sleppti sjö leikmönnum sem hann valdi síðast en er í staðinn með mikið af ungum strákum eins og Joe Gomez, Ruben Loftus-Cheek og Tammy Abraham.

„Þið verðið að velja ykkur annað lið en Þýskaland til að spila vináttuleik gegn. Og svo er Brasilía hitt liðið. Þetta er náttúrlega bara fyndið,“ segir Klopp en The Guardian greinir frá.

„Allir blaðamennirnir verða að slaka á og ekki búast við of miklu. Ég er ekki að segja að Englandi geti ekki unnið leikina, alls ekki. Málið er bara að þið gerið of mikið úr þessu hvort sem liðið sigrar eða tapar,“ segir Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×