Skoðun

Ég gegn mér

Egill Jónsson skrifar
Frábær hugmynd. Hvernig í ósköpunum datt mér það í hug?

Þvílík snilld. Hvað var ég að pæla?

Ólífur eru ógeðslegar. Ég gæti líklega ekki lifað án þeirra.

Ef ég myndi hitta útgáfu af sjálfum mér frá fyrri árum gætum við eflaust rifist um ófá málefni og skoðanir. Hvaða lærdóm er hægt að draga af því? Fyrst ég gæti rifist við sjálfan mig frá fyrri árum, hvernig get ég þá fullyrt að skoðanir mínar í dag séu réttari og mikilvægari en skoðanir næsta manns?

Ég legg því til að ég hlusti á náungann og skoði hans sjónarmið og aðrar tiltækar upplýsingar áður en ég ákveð að leggja fullt traust á eigin skoðanir líkt og þær væru og verði ávallt heilagur sannleikurinn. Ég ætla að sýna mannlegum breyskleika mínum og ófullkomleika tillitssemi. Því túlkunin er raunveruleikinn, raunveruleikinn er túlkunin, og túlkunin er breytileg frá stað og stund. Það hlýtur því að teljast góð hugmynd að staldra reglulega við og hugsa örlítið betur um ástæðurnar fyrir því hvers vegna maður telur sig hafa rétt fyrir sér. Og ekki síður, hvers vegna náunginn telur sig hafa rétt fyrir sér.

Í framtíðinni gæti ég að sama skapi verið ósammála því sem ég segi sjálfum mér hér í dag. Hver veit nema einn daginn muni ég líta til baka og blóta sjálfum mér fyrir að hafa skrifað þetta bull.

Höfundur er nemi í sálfræði og hagfræði við HÍ




Skoðun

Sjá meira


×