Enski boltinn

Gylfi slapp við að vera á óvinsælum lista Guardian

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson kynntur sem nýr leikmaður Everton á Goodison Park.
Gylfi Þór Sigurðsson kynntur sem nýr leikmaður Everton á Goodison Park. Vísir/Getty
Guardian nýtir landsleikjahléið til að gera upp fyrsta þriðjunginn á ensku úrvalsdeildinni og í kvöld velta menn þar á bæ fyrir sér hvað séu bestu og verstu kaupin frá því síðastar sumar.

Everton borgaði meira en 40 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur enn ekki náð að skapa mark í fyrstu tíu leikjum sínum fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Everton er búið að sitja mikið í fallsæti á tímabilinu og knattspyrnustjórinn Ronald Koeman þurfti að taka pokann sinn. Everton-liðið slapp hinsvegar upp úr fallsæti eftir endurkomusigur um síðustu helgi og Gylfi líka sleppur við að vera á listanum yfir verstu kaup sumarsins.

Gylfi kom að 22 mörkum með Swansea í ensku úrvalsdeildinni í fyrra (9 mörk og 13 stoðsendingar) en hann hefur nú spilað 760 mínútur í ensku úrvalsdeildinni með Everton án þess að skora eða gefa stoðsendingu.

Á vonbrigðalistanum eru hinsvegar liðsfélagi hans hjá Everton Davy Klaassen, Southampton-maðurinn Jan Bednarek, Manchester City maðurinn Kelechi Iheanacho, Renato Sanches hjá Swansea City og Jairo Riedewald hjá Crystal Palace. Þessir fimm fá þann „heiður“ að vera verstu kaup síðasta sumars hjá liðunum í ensku úrvalsdeildinni.

Í sömu grein tekur Guardian einnig fyrir bestu kaup sumarsins. Þar eru mennirnir Pascal Gross hjá Brighton, Aaron Mooy hjá Huddersfield Town, Mo Sala hjá Liverpool, Kyle Walker hjá Manchester City og Richarlison hjá watford.

Það er hægt að lesa nánari útlistun og frekari rökstuðning fyrir valinu á listana tvo með því að smella hér.

Bestu kaupin í ensku úrvalsdeildinni í sumar:

Pascal Gross (frá Ingolstadt til Brighton, 2,6 milljónir punda)

Aaron Mooy (frá Man City til Huddersfield Town, 8 milljónir punda)

Mo Salah (frá Roma til Liverpool, 36,9  milljónir punda)

Kyle Walker (frá Tottenham Hotspur til Manchester City, 50 milljónir punda)

Richarlison (frá Fluminense til Watford, 11 milljónir punda)

Verstu kaupin í ensku úrvalsdeildinni í sumar:

Jan Bednarek (frá Lech Poznan til Southampton, 5,7 milljónir punda)

Davy Klaassen (frá Ajax til Everton, 23,7 milljónir punda)

Kelechi Iheanacho (frá Manchester City til Leicester, 25 milljónir punda)

Renato Sanches (frá Bayern Munich til Swansea, á láni)

Jairo Riedewald (frá Ajax til Crystal Palace, 7,9 milljónir punda)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×