Viðskipti innlent

Fjármálageirinn greiðir tæplega þriðjung allra opinberra gjalda

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Fjármálageirinn ber þyngstu byrðarnar þegar kemur að opinberum gjöldum.
Fjármálageirinn ber þyngstu byrðarnar þegar kemur að opinberum gjöldum. Vísir/valli
Fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi greiða tæplega þriðjung allra opinberra gjalda hér á landi, að því er fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja sem kemur út í dag. Hefur skattbyrði umræddra fyrirtækja aukist um 233 prósent frá árinu 2010, en á sama tíma hefur tekjuskattsstofninn aðeins aukist um 79 prósent.

Umfjöllun samtakanna er byggð á skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um skatttekjur, skattrannsóknir og skattaeftirlit sem lögð var fyrir síðasta löggjafarþing.

Alls greiddi fjármála- og vátryggingageirinn tæpa 50 milljarða króna í opinber gjöld í fyrra, en þar af greiddu aðildarfélög samtakanna tæpa 40 milljarða. Í ársritinu er auk þess bent á að arðgreiðslur stóru viðskiptabankanna þriggja – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans – hafi numið um 200 milljörðum frá árinu 2013. Er hluti ríkisins í þeim um 150 milljarðar. Aðildarfélög samtakanna hafi þannig greitt tæplega 400 milljarða króna til ríkisins frá árinu 2009.

Samtökin taka fram að hvergi í Evrópu sé skattlagning á fjármálafyrirtæki hærri en hér á landi. Auk þess sé leitun að ríkjum sem leggi fleiri sérstaka skatta, eins og bankaskatt og fjársýsluskatt, á rekstur slíkra fyrirtækja. Segja samtökin sérstöku skattana rýra að óbreyttu heildarvirði bankakerfisins um allt að 280 milljarða króna en ríkið fer sem kunnugt er með stærstan hluta eignarhalds þess. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×