Enski boltinn

Þetta gerðist þegar að Mikel hætti við að fara til United: „Hernaðaraðgerð“ og taska full af peningum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Obi Mikel skrifaði undir við United en fór aldrei þangað sem leikmaður.
John Obi Mikel skrifaði undir við United en fór aldrei þangað sem leikmaður.
John Obi Mikel, fyrrverandi leikmaður Chelsea, hefur loks opnað sig um allt sem gerðist þegar að hann samdi við Manchester United árið 2005 en endaði svo í Chelsea. Uppákoma sem kostaði Chelsea á endanum 16 milljónir punda.

Mikel var gríðarlega eftirsóttur unglingur í Noregi og Sir Alex Ferguson var mjög áhugasamur um að fá hann til liðs við sig. Hann fór á reynslu til United og skrifaði undir samning við enska stórliðið.

Hann fékk 1,5 milljóna punda samning þrátt fyrir að vera aðeins að klára gagnfræðiskóla. Nígeríumaðurinn fór aftur heim, gekk í raðir Lyn og var einn besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir að vera aðeins táningur.

Roman Abramovich var þarna nýbúinn að kaupa Chelsea og vildi fylla liðið sitt af bestu leikmönnum heims og þeim efnilegustu. Hann ætlaði sér að fá Mikel þrátt fyrir að hann væri búinn að skrifa undir við Manchester United og setti upp fund með leikmanninum og José Mourinho.

„Roman Abramovich sendi sex bíla að sækja mig. Þetta var eins og hernaðaraðgerð. Ég byrjaði á því að fara í einn bílinn, svo töluðu bílstjórarnir saman, ég var skilinn eftir á einum stað og svo kom næsti og sótti mig,“ segir Obi Mikel í viðtali við The Sun.

„Þegar ég hitti José sagði hann mér að Abramovich vildi ólmur fá mig. Hann lofaði að nota mig en það var á þessum tíma sem ég spurði mig hvort ég hefði tekið rétta ákvörðun.“

Obi Mikel fékk 70.000 pund í skjalatösku frá ónefndum umboðsmanni fyrir það að skrifa undir við Chelsea sem hann svo gerði við litla hrifningu Sir Alex Ferguson.

„Ég sá hvað hann var reiður en ég var með Barcelona klárt líka ef þetta hefði ekki gengið í gegn hjá Chelsea. Mér fannst ég bara verða að skrifa undir hjá Chelsea því það sá um mig,“ segir John Obi Mikel.

Nígeríumaðurinn vann ensku deildina tvívegis, Meistaradeildina, fjóra bikara og deildabikarinn tvívegis á tíma sínum á Stamford Bridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×