Handbolti

Ólafur með sigurmarkið á lokasekúndunum | Svona stóðu handboltastrákarnir okkar sig í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson. Vísir/Getty
Nokkrir íslenskir handboltamenn voru í eldlínunni með liðum sínum í Evrópu í kvöld en þá fóru fram leikir í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð. Ólafur Guðmundsson var hetja síns liðs í sænska handboltanum.

Ólafur Guðmundsson skoraði sex mörk þegar Kristianstad styrkti stöðu sína á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með 30-29 heimasigri á Malmö.

Ólafur var mjög sterkur á lokakafla leiksins en hann þurfti aðeins sjö skot til að skora mörkin sín sex. Ólafur skoraði meðal annars sigurmark Kristianstad á lokasekúndum leiksins.

Kristianstad hefur unnið sex deildarleiki í röð og er með tveggja stiga forystu. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark en Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað.

Alfreð Gíslason stýrði sínum mönnum í Kiel til tólf marka sigurs á TVB 1898 Stuttgart, 36-24, á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk úr þremur skotum þegar Füchse Berlin tapaði 26-30 á heimavelli á móti Flensburg. Tap refanna þýðir að Rhein-Neckar Löwen getur nú komist í toppsætið vinni liðið leikina tvo sem það á inni á Füchse.

Ragnar Jóhannsson skoraði eitt mark úr fjórum skotum þegar lið hans Hüttenberg tapaði 28-25 á útivelli á móti VfL Gummersbach.

Rúnar Kárason náði ekki að skora þegar TSV Hannover-Burgdorf vann sex marka útisigur á Friesenheim, 27-21. Rúnar klikkaði á eina skotinu sínu í leiknum.

Tandri Már Konráðsson náði ekki að skora fyrir Skjern þegar liðið vann sannfærandi þrettán marka úitsigur á rúmenska liðinu Dinamo Búkarest, 36-23, í Meistaradeildinni í handbolta. Tandri Már reyndi eitt skot í leiknum.

Skjern-liðið er á toppi riðilsins síns með fimm sigra í fyrstu sjö leikjunum. Tandri Már hefur skorað þrjú mörk í Meistaradeildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×