Skoðun

Sorry seems to be the hardest word

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar
Í leiðara í Fréttablaðinu, 12. nóvember 2015, fullyrti aðalritstjóri 365 að fréttaflutningur Fréttablaðsins af Hlíðamálinu væri réttur og ekkert tilefni væri til að biðjast afsökunar. Þetta væri bara góð blaðamennska.

Með dómi héraðsdóms tveimur árum síðar voru þrettán ummæli sem fjórir blaðamenn 365 höfðu viðhaft ómerkt auk þess sem umfjöllun Stöðvar 2 var talin brot á friðhelgi einkalífs.

Af því tilefni skrifaði aðalritstjórinn nýjan leiðara í Fréttablaðið, 27. október sl., þar sem hann staðhæfði að með dómi héraðsdóms hafi verið þrengt svo að andrými fjölmiðla að það gæti vart talist annað en ritskoðun.

Og í viðtali við Vísi sagði aðalritstjórinn:

„Í dómnum er gengið alltof langt í að takmarka umfjöllun af rannsóknum í kynferðisbrotamálum. Ég er ósammála því, að það megi ekki fjalla um kynferðisbrot, sem eru til rannsóknar.“

Þvert á það sem ritstjórinn segir er farið yfir hver og ein ummæli lið fyrir lið með rökstuddum hætti í dómnum og aðeins hluti þeirra ómerktur. Í rökstuðningi dómsins segir meðal annars:

„Dómurinn tekur undir þau sjónarmið stefndu að mikilvægt sé að flytja fréttir af rannsókn lögreglu af kynferðisbrotamálum ...

Þrátt fyrir að sterkt sé tekið til orða um að ætluð brota stefnefnda hafi verið hrottaleg þykir stefnda ekki hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar.“

Héraðsdómur er því sammála aðalritstjóranum um mikilvægi þess að fluttar séu fréttir af kynferðisbrotamálum sem sæta rannsókn lögreglu. Af rökstuðningi dómsins er jafnframt ljóst að héraðsdómur veitir blaðamönnum 365 verulegt svigrúm til þess að kveða fast að orði og jafnvel fara rangt með.

Hvers vegna segir þá aðalritstjórinn að dómurinn takmarki umfjöllun um kynferðisbrot sem eru til rannsóknar? Líklega telur aðalritstjórinn heppilegra að veifa röngu tré en öngvu og freista þess þannig að beina athyglinni frá því augljósa í málinu.

Sem er að aðalritstjóranum og blaðamönnunum fjórum varð alvarlega á í messunni og lögðu þannig líf tveggja manna í rúst. Einhverjum kynni að þykja afsökunarbeiðni við hæfi.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður




Skoðun

Sjá meira


×