Lífið

Fangaði hljóða stund og athygli ritstjóra

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Ritstjóra verkefnisins sem Íris tók þátt í fannst hún fanga hljóða stund sonar síns einstaklega vel.
Ritstjóra verkefnisins sem Íris tók þátt í fannst hún fanga hljóða stund sonar síns einstaklega vel. Vísir/Anton Brink
„National Geographic gefur út ákveðin verkefni sem ég hef verið að taka þátt í. Ég hef verið að fá dálítið af komm­entum á myndirnar og ritstjórarnir hafa verið að „favorite-merkja“ þær. Nýlega var birt ein mynd eftir mig í svokölluðu „story“ sem birtist á síðunni þeirra,“ segir Íris Bergmann ljósmyndari en mynd frá henni var valin til birtingar á vefsíðu National Geographic nú á dögunum. Hún var í hópi 30 mynda sem voru valdar en heildarfjöldi innsendra mynda var um 21.000 stykki, hvorki meira né minna. Þetta þýðir líka að myndin hennar Írisar gæti ratað á síður National Geographic.

„Ritstjórar á blaðinu búa til verkefni sem eru með ákveðin konsept – þetta hét t.d. „Quiet moments“. Þeir senda út alls konar upplýsingar um hvað þeir vilja sjá. Það er hægt að senda þrjár myndir inn í hvert verkefni og svo velja þeir eftir því hvernig myndin talar til þeirra. Ég hef tekið þátt í a.m.k. þremur verkefnum og þeir hafa gefið mér „favorite“ og sagt eitthvað um myndirnar – það finnst mér rosalega gaman. Ég hef fylgst með þessu blaði síðan ég var krakki þannig að þetta er mjög stórt.“

Mynd Írisar sýnir son hennar við borð að leika sér að taflborði. David Y. Lee, einn ritstjóra blaðsins, segir meðal annars um myndina að hún fangi vel hversu einbeittur drengurinn er og það að hann sé að læra að tefla í stað þess að leika sér í tölvu eða að horfa á sjónvarpið. Honum finnst ákvörðunin um að hafa myndina svarthvíta góð, enda undirstriki það hversu hljótt augnablikið er og að víður ramminn komi því vel á framfæri að hann sé þarna einn með taflborðinu.

„Ég er mjög mikið að taka myndir af stráknum mínum og börnunum mínum, það er rosalega gaman fyrir svona konu úti í bæ að fá viðurkenningu fyrir það. Ég fékk líka póst bara núna í morgun þar sem mér var tjáð að myndin væri orðin „most favorite“ af öllum 30 myndunum. Núna sést hún mjög vel á síðunni.“

Þetta var þó ekki í fyrsta skiptið sem ritstjórn vefsíðu National Geo­graphic er hrifin af ljósmyndum Írisar því að mynd eftir hana var einnig valin sem ein af 12 bestu innsendu myndunum þann 14. mars síðastliðinn.

„Þá var það bara mynd sem var ekkert í neitt sérstakt verkefni, þá fer hún í svona daglegt val, kallað „Daily Dozen“ – þá eru 12 myndir valdar á hverjum degi. Það koma svona 7-10 þúsund myndir á dag. Þetta var mynd sem ég tók út um gluggann og hún fangaði augnablikið, það var það sem greip þann ritstjóra.“

Mynd Írisar má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×