Handbolti

Gunnar: Virkar stundum og stundum ekki

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Víkingarnir hans Gunnars eiga enn eftir að vinna leik í Olís-deildinni.
Víkingarnir hans Gunnars eiga enn eftir að vinna leik í Olís-deildinni. vísir/eyþór
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkinga, var svekktur í leikslok eftir að Fram gjörsigraði hans menn í Olís deildinni í kvöld

„Sérstaklega sárt að leikurinn skyldi þróast svona. Þetta byrjaði bara jafnt eins og við vorum að gera okkur vonir um að leikurinn yrði, sagði Gunnar en staðan var jöfn, 5-5, eftir korter en þá skoraði Fram fimm mörk í röð og þá var ekki aftur snúið.“

„Við byrjuðum að kasta frá okkur boltanum og skjóta úr lélegum færum og þeir refsuðu okkur og þá förum við í hlé átta mörkum undir. Þá var þetta orðin helvíti mikil brekka fyrir seinni hálfleikinn.“

Víkingar spiluðu nær allar sóknir með sjö sóknarmenn og geymdu markmanninn á bekknum. Það skilaði þeim jafntefli gegn Stjörnunni í síðustu umferð en gekk ekki jafn vel í kvöld.

„Þetta virkar stundum og stundum ekki. Í dag var þetta ekki að hjálpa okkur neitt svakalega.“

Hann segist bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir að Víkingur sé enn án sigurs eftir sjö umferðir.

„Við höfum verið að sýna góða kafla og átt góða leiki en við verðum að gera okkur að heilsteyptara liði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×