Innlent

Takast á um gervigrasvöll á Dalvík

Sveinn Arnarsson skrifar
Starfsemi yngri flokka í knattspyrnu er af skornum skammti enda aðstöðu ábótavant.
Starfsemi yngri flokka í knattspyrnu er af skornum skammti enda aðstöðu ábótavant. Vísir/Vilhelm
Tekist er á um byggingu gervigrasvallar í fullri stærð á Dalvík sem myndi kosta sveitarfélagið um 240 milljónir króna. Formaður íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar hefur áhyggjur af því að kostnaður, rekstur og viðhald gervigrasvallar sé of stór fjárfesting fyrir aðeins 1.900 manna sveitarfélag.

Minnihlutinn er sammála því mati og bendir á að starfsemi yngri flokka í knattspyrnu sé af skornum skammti.

„Eins og staðan er núna er enginn 2. og 3. flokkur starfandi í Dalvíkurbyggð og fjórði flokkur dró sig út úr Íslandsmótinu síðastliðið sumar,“ segir Guðmundur St. Jónsson, oddviti J-listans í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar.

„Meistaraflokkur er að mestu leyti skipaður leikmönnum sem ekki komast í aðallið KA og Þórs á Akureyri. Á þessu ári spilaði meistaraflokkur Dalvíkur/Reynis væntan­lega um 10 heimaleiki. Okkar skoðun er að bygging á heilum gervigrasvelli muni ekki hafa mikil áhrif á þá þróun sem verið hefur,“ segir svo í bókun Guðmundar á síðasta fundi byggðaráðs.

Kristinn Ingi Valsson, formaður íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar og fulltrúi meirihlutans, var eini meðlimur ráðsins sem greiddi atkvæði gegn hugmyndinni um gervigrasvöll á síðasta fundi ráðsins.

„Ég tel að ávinningur af gervigrasvelli umfram þá aðstöðu sem nú er í boði sé ekki á pari við kostnaðinn við byggingu gervigrasvallar, rekstur hans og viðhald,“ segir Kristinn Ingi en tekur fram að ef sveitarstjórn og byggðaráð telji að svo sé ekki þá fagni hann því og segir gervigrasvöll bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×