Viðskipti innlent

Launamunur kynjanna um sextán prósent á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Árið 2016 var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl.
Árið 2016 var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl. Vísir/Getty
Óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1 prósent á síðasta ári samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Munurinn hafði verið 17 prósent árið 2015.

Í frétt Hagstofunnar segir að launamunurinn hafi verið rúmlega 16 prósent bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkisstarfsmönnum en rúm átta prósent hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem launadreifing er almennt minni.

„Árið 2016 var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl. Þá voru tæplega 15% karla með heildarlaun yfir milljón á mánuði en tæplega 6% kvenna. Helmingur kvenna var með laun undir 525 þúsund krónum en miðgildi heildarlauna karla var 643 þúsund krónur á mánuði.

Heildarlaun kvenna voru að meðaltali 22% lægri en heildarlaun karla árið 2016. Heildarlaun karla voru að meðaltali 742 þúsund krónur og heildarlaun kvenna 582 þúsund krónur.

Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf. Karlar í fullu starfi unnu að jafnaði meira en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir karla að meðaltali 189,1 á mánuði árið 2016 en 179,7 hjá konum. Þannig var minni munur á grunnlaunum fullvinnandi launamanna eftir kyni eða um 12% enda yfirvinna ekki hluti grunnlauna. Munurinn á reglulegum launum karla og kvenna, það er grunnlaun auk fastra bónus- og álagsgreiðslna, var rúm 15%,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Nánar má lesa um málið á vef Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×