Fótbolti

Segir að flestar stelpurnar verði líklega í fæðingarorlofi þegar að HM fer fram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar fagna hér sigri á Færeyjum í undankeppni HM 2019.
Stelpurnar fagna hér sigri á Færeyjum í undankeppni HM 2019. vísir/eyþór
Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta eru í góðum málum í undankeppni HM 2019 eftir sigur á Þýskalandi og jafntefli gegn Tékkum í tveimur útileikjum á síðustu dögum.

Íslenska liðið er með sjö stig eftir þrjá leiki og á heimaleiki eftir við tvö erfiðustu liðin í riðlinum. Draumurinn um að komast á fyrsta heimsmeistaramótið lifir því góðu lífi.

Fjölmiðlamaðurinn Eiríkur Jónsson tekur sérstakan vinkil á þetta á heimasíðu sinni þar sem hann virðist ekki sjá fram á góðan árangur Íslands á HM takist stelpunum að komast þangað. Þær verða nefnilega að öllum líkindum flestar í fæðingarorlofi þegar að mótinu kemur sumarið 2019, að hans sögn.

„Sagt er að íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sé að brillera í undankeppni HM sem fram fer í Frakklandi 2019 – eftir tæp tvö ár. Þá verða þær flestar að öllum líkindum í fæðingarorlofi því þær eru á þeim aldri,“ skrifar Eiríkur Jónsson.

Hvaða aldur það er tekur hann ekki fram en yngsti leikmaður síðasta hóps er fæddur árið 1999 og sá elsti árið 1985. Sú elsta er Sif Atladóttir sem á barn en hún var ein af aðeins þremur mæðrum í síðasta landsliðshóp.

Það er langur vegur eftir hjá stelpunum á leið þeirra á HM en það verður að teljast afar tæpt að barnalánið verði mikið rætist sá draumur. Það hefur að minnsta kosti ekki verið „vandamál“ á síðustu þremur stórmótum sem stelpurnar komust á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×