Innlent

Gæludýr nú velkomin á veitingastaði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gæludýraeigendur geta nú tekið ferfætta vini sína með á vel valin veitingahús landsins.
Gæludýraeigendur geta nú tekið ferfætta vini sína með á vel valin veitingahús landsins.
„Þau mega bara koma á morgun, eða í dag,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í samtali við Vísi. Hún undirritaði í dag breytingu á reglugerð um hollustuhætti um hunda og ketti á veitingastöðum.

Breytingin kveður á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sé heimilt að leyfa gestum að koma með hunda og ketti inn á veitingastaði að uppfylltum tilteknum skilyrðum. 

Reglugerðin gildir um alla einkarekna veitingastaði. Vilji rekstraraðilar opna dyr sínar fyrir ferfætlingum þurfa þeir að tilkynna það til heilbrigðisnefndar en ekki þarf að biðja um sérstakt leyfi. 

„Í reglugerðinni segir að það þurfi að hafa það mjög sýnilegt við hurð eða eitthvað slíkt að gæludýr séu leyfð inni á viðkomandi stað. Það á að vera fólki ljóst, viðskiptamönnum sem labbar inn hvernig aðstæður eru. Það eru bara einhverjir svona hlutir sem er verið að tiltaka,“ segir Björt.

„Þetta er ekki opinberir staðir eins og heilsugæslur eða neitt slíkt því þar hefur fólk ekki val um að mæta. En þetta á við um veitingamenn sem vilja opna sínar dyr.“

Björt tilkynnti tillöguna fyrst á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Við það tilefni sagði hún við fréttastofu að um tímabærar breytingar væri að ræða.

„Við höfum kannski verið að banna hluti sem ættu að vera undir sjálfsákvörðunarrétti einstaklinganna komið. En auðvitað skiptir máli að við horfum á öll sjónarmið í þessum efnum og vegum og metum hvort við séum að sinna almannahag. Hvað þetta varðar, hvað veitingastaði varðar, ef veitingamenn vilja bjóða gæludýr gesta á staðnum velkomin þá ætlum við einfaldlega að leyfa það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×