Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Tindastóll 81-88 | Þrír sigrar í röð hjá Stólunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson og Antonio Hester.
Sigtryggur Arnar Björnsson og Antonio Hester. Vísir/Eyþór
Tindastólsmenn sóttu tvö stig í Grindavík þegar liðið vann sjö stiga sigur á heimamönnum, 88-81, í lokaumferð 4. umferðar Domino´s deildar karla. Stólarnir hafa þar með unnið þrjá leiki í röð en þetta var annað tap Grindavíkurliðsins í röð. Tindastólsliðið tryggði sér sigur með því að vinna lokaleikhlutann 26-17 en þar fór Antonio Hester á kostum.

Leikurinn í kvöld var í járnum lengst af. Heimamenn höfðu undirtökin til að byrja með en gestirnir voru aldrei langt undan. Landsliðsmiðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk þrjár villur á fyrstu fimm mínútunum, spilaði lítið eftir það og munaði um minna fyrir heimamenn.

Stólarnir gengu á lagið og hirtu heilan helling af sóknarfráköstum. Þeir komust yfir og leiddu með tveimur stigum í hálfleik eftir að Ólafur Ólafsson skoraði þriggja stiga körfu fyrir Grindvíkinga um leið og hálfleiksflautan gall.

Í þriðja leikhluta náðu Grindvíkingar smá áhlaupi. Þeir komust mest 9 stigum yfir og voru að leysa fjarveru Sigurðar mun betur en í fyrri hálfleiknum. Stólarnir komu þó til baka og það munaði aðeins tveimur stigum fyrir lokafjórðunginn.

Þar voru það gestirnir sem voru sterkari. Antonio Hester gjörsamlega átti teiginn og skoraði nánast að vild. Tindastóll leiddi með 6-8 stigum í lokin og Grindvíkingar náðu ekki að brúa það bil.

Lokatölur 88-81 og leikmenn Tindastóls fögnuðu vel í lokin.

Af hverju vann Tindastóll?

Þeir nýttu sér yfirburði Hester í teignum vel, sérstaklega í fjórða leikhlutanum. Villuvandræði Sigurðar komu sér afar illa fyrir heimamenn en hann spilaði ekki nema tólf mínútur í kvöld.

Skotin voru heldur ekki að detta og Jóhann þjálfari orðaði það þannig að systurnar „ef“ og „hefði“ hafi ekki verið með þeim í liði í kvöld. Mörg þriggja stiga skot í fjórða leikhlutanum dönsuðu á hringnum og vildu ekki niður.

Stólarnir skoruðu 42 stig gegn 26 stigum Grindvíkinga í teignum og þar sést hvaða yfirburði Hester hafði.

Hverjir stóðu upp úr?

Antonio Hester skoraði 25 stig og tók 13 fráköst í kvöld. Frábær leikur hjá honum og þá sérstaklega í lokaleikhlutanum þar sem hann tók yfir. Pétur Rúnar Birgisson var einnig öflugur með 11 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Þá verður að minnast á Chris Caird sem átti sinn besta leik á tímabilinu. Hann skoraði mikilvægar körfur og skilaði 19 stigum.

Hjá Grindavík átti Rashad Wack ágætan leik með 22 stig og Ólafur Ólafsson skilaði 14 stigum og 9 fráköstum.

Hvað  gekk illa?

Grindvíkingar lentu í vandræðum í teignum en tveir þeirra stærstu menn fóru útaf með fimm villur, þeir Sigurður Þorsteinsson og Ómar Sævarsson, og þar af var Sigurður í villuvandræðum strax í upphafi.

Bæði lið voru að hitta fremur illa í þriggja stiga skotunum og voru með rétt yfir 20% nýtingu. Grindvíkinga reyndu mikið við þristana en þeir vildu ekki niður.

Hvað gerist næst?

Tindastóll fær Hauka í heimsókn í næstu umferð og munu þar freista þess að ná fjórða sigurleiknum í röð. Haukar mæta særðir til leiks eftir tap á heimavelli gegn Keflavík og þessi leikur verður afar áhugaverður.

Grindvíkingar halda austur á Egilsstaði og mæta þar Hattarliði sem enn er án sigurs í Dominos-deildinni.



Grindavík-Tindastóll 81-88 (23-19, 19-25, 22-18, 17-26)



Grindavík: Rashad Whack 22/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 15/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/9 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 8, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/7 fráköst, Hinrik Guðbjartsson 6, Ingvi Þór Guðmundsson 5/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 2, Ómar Örn Sævarsson 2/7 fráköst.

Tindastóll: Antonio Hester 25/13 fráköst, Christopher Caird 19/5 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 18/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 11/9 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 6, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/4 fráköst, Axel Kárason 3/4 fráköst.

Martin: Verðum sterkari með hverri vikunni sem líður
Israel Martin er þjálfari Tindastóls.
„Tindastólsfjölskyldan er afar ánægð með þennan sigur, þetta er stór sigur. Nú held ég að allir séu komnir með sín hlutverk á hreint í liðinu og við verðum sterkari með hverri vikunni sem líður,“ sagði Israel Martin þjálfari Tindastóls eftir sigurinn í Grindavík í kvöld.

„Allri leikir í deildinni eru mjög erfiðir og í dag sáum við að það er karakter í liðinu og við sáum líka sigurhugarfar. Ég held að við getum haldið áfram á þessari braut.“

Antonio Hester fór á kostum í fjórða leikhlutanum fyrir Tindastól og nýtti yfirburði sína í teignum eftir að Grindvíkingar misstu stóra manninn sinn af velli.

„Það vita allir að við viljum spila hraðan leik. En ef við getum ekki skorað auðveld stig þá verðum við að setja boltann inn í teiginn. Hester gerði mjög vel í dag og aðrir leikmenn völdu réttu augnablikin til að koma boltanum inn í teiginn.“

Tindastóll var að vinna sinn þriðja leik í röð og Martin sagði að menn væru ánægðir með byrjunina á mótinu.

„Við töpuðum auðvitað fyrir ÍR í fyrsta leik en það er búið. Við þurfum að halda áfram, tímabilið er langt og við þurfum að vera klárir í alla leiki. Allir geta uninð allan en ég er ánægður með mitt lið og mikilvægast er að liðið er að bæta sig,“ sagði Martin að lokum.

Jóhann: Systurnar "ef" og "hefði" voru ekki á okkar bandi
Jóhann Þór ræðir við sína menn.vísir/andri marinó
„Ég get ekki verið annað en stoltur af mínu liði. Þetta er búið að vera erfið vika fyrir mig persónulega og ég er stoltur af mínu liði. Við erum að spila betur en í síðasta leik og systurnar „ef“ og „hefði“ voru ekki á okkar bandi í kvöld,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir leikinn í kvöld.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var í villuvandræðum frá upphafi og það munar miklu fyrir Grindvíkinga að missa hann, enda frábær miðherji þar á ferð

„Siggi spilar ekki nema 12 mínútur í dag, var í villuvandræðum frá upphafi leiks. Það er eitt og annað sem spilar inn í en heilt yfir er ég nokkuð stoltur af mínu liði.“

Var Jóhann ósáttur með villurnar sem Sigurður var að fá dæmdar á sig?

„Ég er ósáttur með tvær villur sem hann fékk. Ég er ekkert ósáttur með dómgæsluna og ætla ekkert að ræða það. Það er alltaf eitthvað sem maður er ósáttur við og yfirleitt hefur maður rangt fyrir sér. Mér fannst dæmt meira á okkur en þá en það eru 98% líkur á það sé tóm steypa,“ bætti Jóhann við.

Antonio Hester hafði yfirburði í teignum í fjarveru Sigurðar og auk þess voru gestirnir að hirða töluvert af sóknarfráköstum.

„Það var sérstaklega í fyrri hálfleik, mér fannst við laga það í seinni. Svo voru lausir boltar að detta hjá okkur sem við vorum ekki að taka og okkur var bara ekki ætlað að vinna. Við vorum betri í kvöld en í síðasta leik og það eru framfarir í okkar leik,“ sagði Jóhann að lokum.

Pétur Rúnar: Getum vonandi byggt á þessu
Pétur Rúnar er mikilvægur fyrir Stólana.
„Eins og deildin er að spilast að öll liðin eru að vinna alla þá er það auðvitað gríðarlega sterkt að vinna í Grindavík. Þetta var fínn leikur hjá okkur og vonandi getum við byggt á þessu,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson eftir sigur Tindastóls í Grindavík í kvöld.

Antonio Hester var frábær hjá Stólunum í kvöld og nýtti sér vel að Sigurður Gunnar Þorsteinsson var í villuvandræðum hjá Grindavík.

„Klárlega hefur það hjálpað okkur eitthvað, okkar stóri maður fékk fyrir vikið ekki þeirra aðal stóra mann. Hester gerði vel, hann var lengi í gang en var frábær í fjórða leikhluta og kláraði þetta fyrir okkur.“

„Varnarlega og sóknarlega vorum við mjög traustir. Við héldum áfram að fara inn á Hester og varnarlega fengum við stopp. Það gerði gæfumuninn hér í dag,“ bætti Pétur við.

Tindastóll hefur unnið þrjá leiki í röð eftir tap á heimavelli gegn ÍR í fyrstu umferðinni.

„Við byrjuðum á þessum leik gegn ÍR en það er einn tapleikur og 21 leikur eftir hann. Við erum núna á ágætis ferð en þetta er nýbyrjað og enginn að fagna í dag,“ sagði Pétur sallarólegur að lokum.

Ólafur: Hef engar áhyggjur af þessu
Ólafur Ólafsson hefur engar áhyggjur þrátt fyrir tvö töp Grindvíkinga í upphafi tímabils.Vísir/Eyþór
Landsliðsmaðurinn Ólafur Ólafsson var ánægður með margt í leik Grindvíkinga í kvöld en sagði að sóknarfráköst Tindastóls hefðu gert hans liði erfitt fyrir.

Við vorum betri en síðast gegn Keflavík. Við leggjum alltaf upp með að bæta okkar leik og mér fannst við gera það. Að stíga út í vörninni gerðum við ekki nógu vel, þeir fengu alltof mikið af öðrum tækifærum í sókninni og það varð okkur að falli í dag,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir leik.

Stóru menn Grindvíkinga voru í villuvandræðum í kvöld og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var kominn með þrjár villur strax eftir fimm mínútna leik og spilaði lítið þar til hann fékk fimmtu villuna í síðari hálfleik.

„Við missum mikið þegar Siggi eru í villuvandræðum, þetta er besti íslenski miðherjinn. Stundum eru þetta klaufalegar villur sem hægt er að sleppa við en hann er það mikilvægur að hann má ekki detta í villuvandræði. Það munar um hann í teignum gegn svona trölli eins og þeir eru með,“ en þar á Ólafur við Antonio Hester sem var frábær fyrir Stólana í kvöld.

Grindvíkingum var spáð góðu gengi í vetur en hafa tapað tveimur af fyrstu fjórum leikjunum í Dominos-deildinni. Er komið eitthvað stress í Grindavík?

„Nei elskan mín góða, það er október. Ég hef engar áhyggjur af þessu. Við förum yfir þetta og skoðum málin,“ sagði Ólafur borubrattur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira