Innlent

Uppbótarþingmaður Samfylkingarinnar: „Vildi ekki gera neitt til að „jinxa“ þetta“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Albertína Friðbjörg hefur aldrei tekið sæti á Alþingi áður.
Albertína Friðbjörg hefur aldrei tekið sæti á Alþingi áður.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir náði kjöri í þingkosningunum sem fram fóru í gær. Hún er ein af nýju þingmönnunum sem aldrei hefur tekið sæti á Alþingi áður.

„Ég viðurkenni að ég lagði mig milli fjögur og sjö. Ég var inni þegar ég fór að sofa og ennþá inni þegar ég vaknaði. Svo beið maður eftur Norðvestur og Kraganum,“ segir Albertína en hún er uppbótarþingmaður Norðausturkjördæmis. Þeir sem eru í uppbótarsætunum um miðja kosninganótt eiga flestir svefnlitlar nætur og hún var engin undantekning.

Albertína Friðbjörg er búsett á Akureyri, en hún er framkvæmdastjóri jarðorkufyrirtækisins Eims, og hefur í hyggju að búa þar áfram eftir að hún hefur tekið sæti. Hún segist ekki enn vera búin að plana neitt hvernig fyrirkomulagið verður, það verði að skýrast.

„Ég þorði ekki að gera neitt í gær til að „jinxa“ þetta. Ég er ekki búin að græja neitt en það verður sett á fullt núna. Ég var í ofboðslega áhugaverðu starfi áður en ég kom inn á þing og ég hugsa að sú reynsla muni koma til með að nýtast vel.“

Þingflokkur Samfylkingarinnar rúmlega tvöfaldast frá því sem áður var, fer úr þremur mönnum í sjö. Um tíma í nótt var flokkurinn með átta menn inni á þingi en þegar yfir lauk voru þeir sjö talsins. Albertína segist ánægð með niðurstöðuna þó hún hafi vissulega vonast eftir enn fleiri þingmönnum miðað við niðurstöður skoðanakannana síðustu daga.

„Við fundum fyrir miklum meðbyr. Á ferðalagi okkar um kjördæmið var mikið fjör og fundirnir vel sóttir,“ segir Albertína. „Ég er ofboðslega þakklát öllum þeim sem að studdu okkur í þessari baráttu og sýndu stuðning í verki. Ég er gríðarlega spennt að takast á við þetta nýja verkefni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×