Lífið

Mótlæti gerir mann sterkan

Elín Albertsdóttir skrifar
Þórdís Malmquist og Konráð Ó. Fjeldsted eru samhent hjón sem láta mótlætið ekki buga sig.
Þórdís Malmquist og Konráð Ó. Fjeldsted eru samhent hjón sem láta mótlætið ekki buga sig. MYND/ERNIR
Þórdís Malmquist sjúkraliði greindist með brjóstakrabbamein fyrir síðustu jól. Þótt það hafi verið áfall að greinast ákvað hún strax að takast á við þetta nýja og erfiða verkefni með jákvæðni að leiðarljósi.

Þórdís segist hafa farið í brjóstamyndatöku hjá Leitarstöðinni í desember í fyrra þar sem meinið greindist. Þetta var síðasta myndatakan þar sem Leitarstöðin hættir að boða konur þegar þær hafa náð 69 ára aldri. „Það var svolítið skrítið en þegar ég mætti í myndatökuna fór ég að hugsa um hvernig ég myndi bregðast við ef eitthvað fyndist. Mér datt samt ekki í hug að eitthvað væri að mér enda fullfrísk. Þegar ég var boðuð aftur í Leitarstöðina til frekari rannsókna ákvað ég að taka fréttunum með ró hvernig sem þær yrðu. Þá fór ég í ástungu og fann að hugurinn var ekki alveg rólegur þótt ég léti líta þannig út á yfirborðinu. Ég var virkilega ákveðin að láta engan bilbug á mér finna þótt vissulega væri þetta áminning um að alvara væri á ferð,“ segir Þórdís.

Tárin brutust fram

„Ég var boðuð í þriðja skiptið og þá til að ræða við lækna. Ég var fyrst spurð hvort ég hefði komið ein á fundinn en þá fór nú svolítið um mig. Hjúkrunarfræðingur tók utan um axlirnar á mér og sagðist geta verið með mér en ég hafði ekki áttað mig á því að betra hefði verið að hafa einhvern með sér á fundinn. Þarna var naglinn ég farin að bogna. Ég reyndi engu að síður að standa mig vel. Læknarnir tilkynntu mér að fundist hefði mein í brjósti sem þyrfti að skera burt. Fundurinn var ekki langur en á heimleiðinni hugsaði ég með mér, já, einmitt. Nú er ég komin á þennan stað. Hvað verður næst? Mér var vissulega brugðið en hef lært það í lífinu að reyna að láta ekki á slíku bera. Tárin brutust samt fram þótt ég hefði ákveðið innra með mér að þetta væri verkefni sem ég þyrfti að takast á við með jákvæðni,“ segir Þórdís sem greinilega er ekki vön að tala um veikindi sín.

Frekari rannsóknir leiddu í ljós að meinið var verra en hún hafði búist við. „Ég fékk fréttirnar á Þorláksmessu,“ segir Þórdís sem starfar á Landspítalanum og hafði boðið eiginmanni sínum, Konráð Fjeldsted, í skötuveislu í vinnunni. „Ég segi stundum í gríni að brjóstið hafi farið með síðasta bitanum af skötunni,“ segir hún. Það var ekki fyrr en í febrúar sem Þórdís fór í brjóstnám. „Ég vann öll jólin og reyndi að gleyma sjúkdómnum. Mér líður vel í vinnunni og þykir vænt um samstarfsfélaga mína. Þetta er álagsdeild, lokuð deild þar sem eru heilabilaðir einstaklingar. Að vinna með góðu fólki dreifir huganum. Það er gríðarlega dýrmætt þegar maður gengur í gegnum svona erfitt ferli að vera umvafinn kærleiksríkum og skilningsríkum vinnufélögum.“

Drep í húðinni

Þegar brjóstið var fjarlægt var ákveðið að gera uppbyggingu í leiðinni. Það voru Jens Kjartansson lýtalæknir og Þorvaldur Jónsson skurðlæknir sem komu að aðgerðinni en sérstakur vefjaþenjari var settur undir húðina. „Hálfum mánuði eftir aðgerðina leit sárið ekki vel út og komið svart drep í húðina. Ég þurfti því að fara í aðra aðgerð þar sem vefjaþenjarinn var fjarlægður. Það tók sinn tíma fyrir sárið að gróa sem var ansi ljótt. Ég fór í Pollýönnuleikinn á fullu, þakkaði fyrir að meinið væri farið og ég þurfti ekki að fara í geisla. Eftir þessa lífsreynslu ákvað ég að gera eitthvað skemmtilegt. Ég fór í þrjár utanlandsferðir og heimsótti vinafólk í Englandi, Þýskalandi og Danmörku. Það gerði mér mjög gott,“ segir Þórdís sem byrjaði aftur í vinnu í júní eftir veikindaleyfi. „Núna er ég aftur byrjuð í uppbyggingaferli hjá Jens sem gengur mjög vel,“ segir Þórdís.

Missti ekki hárið

Þótt hún hafi losnað við lyfja- og geislameðferð þar sem meinið var allt skorið burtu, þarf hún engu að síður að taka hormónabælandi lyf. „Ég var tekin af hormónalyfi sem ég hafði tekið inn í nokkur ár vegna tíðahvarfa. Ég fékk því breytingaskeiðið tvöfalt í hausinn með tilheyrandi svitakófi. Krabbameinið sem ég fékk er hormónatengt. Ég tel mig heppna að hafa ekki þurft að fara í lyfjameðferð né heldur missa hárið. Þessi veikindi hafa þroskað mig og eflt í mér baráttuandann.“

Þórdís hefur allt frá því hún greindist tekist á við sjúkdóminn með jákvæðni að leiðarljósi.MYND/ERNIR
Dásamlegt starfsfólk

Þórdís segir að hún hafi verið greind með þunglyndi þegar hún var 46 ára. „Það kenndi mér meðal annars að svefninn er afar mikilvægur til að halda geðheilsunni í lagi. Ég leitaði mér strax stuðnings eftir að ég greindist með krabbamein og aflaði mér alls kyns upplýsinga á netinu. Í leiðinni skoðaði ég hvað væri í boði fyrir fólk sem greinist með svona alvarlegan sjúkdóm. Þar sá ég að ráðgjöf væri í boði hjá Krabbameinsfélaginu og ákvað að panta tíma. Þannig komst ég í dásamlegt utanumhald hjá Lóu Björk Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi þar sem ég fékk að rasa út og grenja úr mér augun. Einnig hitti ég Þorra Snæbjörnsson sálfræðing sem var mér mjög dýrmætt. Ég get ekki nógsamlega lofað það hversu frábært það er að hafa svona bakland. Þeir sem greinast ættu ekki að hika við að nota þessa þjónustu í Skógarhlíð og hjá Ljósinu. Einnig verð ég að minnast á félaga mína í Boðunarkirkjunni í Hafnarfirði. Frá því ég var 38 ára hef ég átt lifandi trú sem þýðir að ég fór að lesa Biblíuna sem rannsóknarefni með innihald sem ætti erindi inn í mitt líf. Ég er enn að læra og hef verið virk í söfnuðinum. Trúin getur gefið kjark og óttaleysi. Þá voru þeir Þorvaldur læknir og Jens einstaklega nærfærnir og elskulegir. Sömu sögu má segja um Þóri S. Njálsson, lýtalækni á Brjóstamóttökunni. Það er aldrei ofmetið hve mikilvægt það er að læknir sem hefur líf þitt og heilsu í hendi sér sýni hlýju og virðingu í samskiptum. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt þetta fólk, bæði á Brjóstamóttökunni á Landspítalanum og í Skógarhlíð.“

Með bjartsýnina að vopni

Þórdís tók stúdentspróf 62 ára auk þess að útskrifast sem sjúkraliði. „Mér fannst ég skulda sjálfri mér hvíta húfu. Að ljúka einhverjum áfanga var mér dýrmætt þótt seint væri. Það er aldrei of seint að bæta við sig menntun eða þekkingu. Mitt mottó er að gefast aldrei upp. Ég á þrjú uppkomin börn og sjö barnabörn. Það er fullt af fallegu og skemmtilegu fólki í kringum mig.“

Þórdís og eiginmaður hennar, Konráð, giftu sig árið 2004. Hann var ekkjumaður en fyrri kona hans lést úr krabbameini. „Hann er yfirvegaður og rólegur, tryggur vinur sem alltaf er til staðar. Ég hef engu að síður forðast að væla í honum,“ segir Þórdís. „Batahorfur krabbameinssjúkra eru alltaf að batna og ég kvíði engu en vissulega er mikið áfall að veikjast. Ég legg áherslu á hollt og gott mataræði en mætti vera duglegri í ræktinni. Ég er þakklát fyrir þá hjálp sem ég hef fengið, lífið er ekki búið þótt maður greinist með krabbamein. Maður velur sjálfur hvernig brugðist er við mótlæti í lífinu,“ segir Þórdís.

Eiginmaður hennar, Konráð, segist vera viss um að Þórdís eigi eftir að ná sér að fullu. „Við erum alltaf bjartsýn,“ segir hann. Batahorfur eru mun meiri núna en þegar fyrri kona hans, Anna Soffía Jóhannsdóttir, veiktist. „Hún barðist við krabbann í níu ár og við vorum alltaf í mikilli afneitun,“ segir hann. „Við Þórdís erum opnari gagnvart sjúkdómnum og samstíga. Það sem bjargar mér í gegnum þetta er trú mín á Jesú. Þetta eru erfiðir tímar á meðan þetta stendur yfir en við stöndum þetta af okkur,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×