Lífið

Vippaði hákarli úr lauginni, eins og maður gerir

Samúel Karl Ólason skrifar
Hákarlinn var fastur í lauginni og Melissa segist hafa fundið til með honum.
Hákarlinn var fastur í lauginni og Melissa segist hafa fundið til með honum.

Ástralskur fasteignasali gerði sér lítið fyrir og stakk sér til sunds í sjávarlaug í Oak Park nærri Melbourne. Það væri svo sem ekki frásögum færandi ef ekki hefði verið fyrir hákarlinn sem var í lauginni. Konan stakk sér til sunds til þess að ná hákarlinum og kasta honum úr lauginni.

Um er að ræða laug sem hafði verið steypt upp á ströndinni.

Hákarlinn er ekki stór en þrátt fyrir það hefur myndbandið verið í gífurlegri dreifingu eftir að fasteignasalan sem Melissa Hatheier vinnur hjá birti myndband af hákarlaveiðum hennar.

Sjálf segist hún hissa á athyglinni.

„Ég var bara að reyna að ná litlum hákarli. Ef hann hefði haft stórar tennur hefði ég ekki gert þetta,“ sagði Melissa við St George and Sutherland Shire Leader. Hún segir hákarlinn hafa verið um metra að lengd og að annað hvort hefði verið um Port Jackson eða Wobbegong hákarl að ræða.

Hákarlinn var fastur í lauginni og Melissa segist hafa fundið til með honum. Henni tókst að reka hann upp í grynningar laugarinnar þar sem hún segist hafa skutlað sér á hann. Hún passaði sig að taka utan um hausinn á honum svo hann gæti ekki bitið hana og tókst að kasta honum út fyrir laugina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.