Viðskipti innlent

Andað ofan í hálsmál Costco

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Costco dælir út ódýrara eldsneyti en Dælan sækir á.
Costco dælir út ódýrara eldsneyti en Dælan sækir á. Vísir/Ernir
Verð á eldsneytislítranum hjá Costco hefur hækkað á undanförnum vikum en á sama tíma hefur nýr keppinautur sótt verulega á svo nú munar aðeins nokkrum krónum á lítranum. Nú er svo komið að aðeins munar 5,9 krónum á lítranum af 95 oktana bensíni hjá Dælunni og Costco og aðeins 4 krónum á dísillítranum.

N1 opnaði þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir nafninu Dælan í lok maí í fyrra við Fellsmúla, Smáralind og Staldrið. Þar hefur lítraverðið verið lægra en hjá N1. Í gær kostaði bensínlítrinn 177,8 kr. hjá Dælunni en 171,9 hjá Costco. Dísillítrinn var á sama tíma á 167,9 kr. hjá Dælunni en 163,9 hjá Costco.

Þegar Costco hóf innreið sína á eldsneytismarkaðinn í sumar ætlaði allt um koll að keyra enda gat fyrirtækið boðið umtalsvert lægra verð en íslensku olíufélögin. Hefur þar munað ríflega 30 krónum á lítranum í mörgum tilfellum.

Þann 18. ágúst síðastliðinn kostaði bensínlítrinn í Costco 167,9 krónur og hefur því hækkað um 4 krónur síðan þá. Dísilolían hefur á sama tíma hækkað um 5 krónur.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta minnsti munur á lítraverði sem verið hefur hjá íslensku olíufélagi og Costco frá því erlendi risinn opnaði stöð sína í maí síðastliðnum. Costco hefur því gefið eftir en innlendir keppinautar sótt á. Hvort tímabært sé að tala um verðstríð verður þó að koma í ljós. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×