Innlent

Vilja setja fjóra milljarða í átak gegn kynbundnu ofbeldi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Helga Vala Helgadóttir er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Vísir/Vilhelm

Samfylkingin vill veita fjórum milljörðum á næsta kjörtímabili til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta tilkynnti Helga Vala Helgadóttir, oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, á málþingi á vegum Femínistafélags Háskóla Íslands í dag.

Um er að ræða þríþætta áætlun og er gert ráð fyrir að einum milljarði sé varið á hverju ári kjörtímabilsins í verkefnið. Um er að ræða eflingu á löggæslu, fræðslu og forvarnir á öllum skólastigum og betri heilbrigðisþjónustu.

„Það þarf að efla löggæsluna til þess að fá fram markvissari málsmeðferð í ofbeldisbrotum. Við erum ekki bara að tala um kynferðisofbeldi. Við erum að tala um kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi og svo þetta netofbeldi sem er auðvitað risastór þáttur sem einhvern veginn við erum ekki að sinna,“ segir Helga Vala Helgadóttir í samtali við Vísi.

Lögreglumenn hætti vegna veikinda
Hún segir nauðsynlegt að fjölga lögregluþjónum á íslandi. Þeim hafi fækkað undanfarin tíu ár frá 712 niður í 660. Nú séu fleiri einstaklingar hérlendis, bæði Íslendingar sem og ferðamenn.

„Það er ekkert óalgengt að meðal lögreglumaðurinn vinni um 100 yfirvinnutíma í mánuði, sem eru þá svona 25 á viku sirka. Það er bara, maður sér alveg strax hvernig það fer. Það er svo ótrúlega mikið álag. við erum að missa fólk út úr þessari stétt, við erum að missa fólk í langtimaveikindi, reynslumikla lögregluþjóna. þetta er hrikalegt ástand. Þessu hefur bara ekkert verið sinnt, þrátt fyrir ákall árum saman.“

Annar hluti átaksins snýr að viðvarandi fræðslu og forvörnum í skólum á grunnskóla-, menntaskóla- og háskólastigi.

„Ekki eitthvað mánaðarátak þar sem við komum inn í samfélagsfræðitímana, heldur að setja þetta inn í lífsleiknina. Þannig við byrjum bara strax í grunnskóla á því að efna fræðsluna. það er þar sem framtíðar gerendur og þolendur eru og þarna þurfum við að byrja. Meðvitundin þarf að vera alveg skýr alveg frá byrjun,“ segir Helga.

„Þriðji punkturinn er heilbrigðiskerfið. Neyðarmóttaka á landspítala hefur verið í algjörri framvarðarsveit þegar kemur að móttöku brotaþola. En það veltur það rosalega mikið á elju þeirrar manneskju sem þar heldur um taumana.“

Hún bendir á að heilbrigðisstofnanir annars staðar á landinu standi verr þegar kemur að meðferð kynferðisbrota. Samræma þurfi þjónustuna og jafnframt auka framlag til neyðarmóttöku Landspítala.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira