Innlent

„Lítt markvert veður í vændum“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það verður blautt og hvasst næstu daga.
Það verður blautt og hvasst næstu daga. Vísir/Anton

Veðurstofan varar við áframhaldandi vatnavöxtum á annesjum á Norðurlandi og þá sé þar aukin hætta á skriðuföllum. Einnig er búist við talsverðri eða mikilli rigningu eða slyddu á utanverðum Tröllaskaga um tíma í nótt.

Þá verður úrkomusamt næsta sólarhringinn fyrir norðan á meðan um landið sunnan- og austanvert verður ágætis veður. Þótt ekki verði alveg samfelld rigning norðantil í dag, mun rigna nokkuð hressilega, einkum við ströndina.

Lægðin sem þessu veldur mun svo fara af stað til austurs í kvöld og síðan halda til norðausturs. Vindstrengurinn frá henni mun ná inn á norðanvert landið ásamt úrkomuskilum. Þá mun kólna og því gæti náð að „slydda í byggð einnig,“ eins og það er orðað á vef Veðurstofunnar.

„Einna helst er að sjá að austanverður Skagafjörður og Fljót fái mesta úrkomu í nótt en annars er úrkoman einkum bundin við annesin fyrir norðan. Fyrir hádegi á morgun, laugardag verða síðan skilin og vindstrengurinn kominn austur af landinu og lítt markvert veður í vændum fram yfir helgi,“ segir þar jafnframt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Vestan og norðvestan 8-15 m/s, en 15-20 við N-ströndina fram eftir degi. Rigning eða slydda um landið norðanvert, en bjart með köflum sunnantil. Lægir og léttir til NV-til seinnipartinn, en um landið NA-vert um kvöldið. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á sunnudag og mánudag:
Hæg breytileg átt, en lengst af V 5-10 við NA-ströndina. Bjart með köflum, en lítilsháttar úrkoma vestantil. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins.

Á þriðjudag:
Vaxandi suðaustanátt, fyrst suðvestantil. Suðaustan 8-18 um kvöldið, hvassast og rigning við S-ströndina. Hiti 0 til 5 stig N- og A-til, en 3 til 8 annars.

Á miðvikudag:
Ákveðin austlæg átt en mun hægari seinnipartinn. Rigningu um mest allt land og hiti 2 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og yfirleitt þurrt, en norðaustanátt og rigning NV-til. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira