Skoðun

Dóttir mín á tvær mömmur

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Ég hef oft fengið spuninguna: „Finnst þér ekki erfitt að dóttir þín kalli aðra konu mömmu.“ Svarið er einfalt: Nei, ég er heppin.

Við dóttir mín eigum það sameiginlegt að eiga tvær systur. Systur mínar eru eitt það dýrmætasta sem ég á. Systur dóttur minnar eru augljóslega ekkert skyldar mér, en ég á samt smá í þeim. Ég fæ stundum þessa eldri lánaða (hin er ennþá of ung til að gista). Þá er öllu tjaldað til og gert eitthvað skemmtilegt allan daginn. Síðast bjó ég fallega um þær inni í herberginu hennar dóttur minnar. Önnur átti að sofa í rúminu en hin á dýnu á gólfinu. Þegar ég leit inn til þeirra stuttu seinna voru þær steinsofandi saman í faðmlagi í rúminu. Ég hefði aldrei kynnst þessari fallegu systraást ef barnsfaðir minn og hans kona hefðu ekki leyft mér að taka þátt í þessari hlið á lífinu hennar.

Heima hjá mér eru myndir af systrunum um alla íbúð sem sú stutta er svo ánægð með. Hún segist eiga heima á báðum heimilunum alveg eins og eldri systir sín sem hún auðvitað gerir.

Já, ég er svo heppin að öll stóra skrautlega fjölskyldan mín vill það besta fyrir stelpurnar okkar og það skemmtilega er að við foreldrarnir græðum svo mikið á því.

Nei, mér finnst ekki erfitt að dóttir mín eigi tvær mömmur, því ég vil það besta fyrir dóttir mína og gott sambandi á milli allra sem að henni koma er það besta fyrir hana.

Það að dóttir mín eigi tvær mömmur þýðir ekki að það sé minna fyrir mig. Það þýðir einfaldlega að það sé meira fyrir hana.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.

Systurnar þrjár saman.



Skoðun

Sjá meira


×