Umdeild vítaspyrna í sigri Watford gegn Arsenal

Mertesacker reynir að stöðva Gray í leiknum í kvöld.
Mertesacker reynir að stöðva Gray í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Skytturnar misstigu sig í lokaleik dagsins í enska boltanum í 1-2 tapi gegn Watford á Vicarage Road en fyrrum leikmaður Manchester United, Tom Cleverley, skoraði sigurmarkið á 92. mínútu leiksins eftir að Watford hafði jafnað metin úr vafasamri vítaspyrnu.

Miðvörðurinn stóri og stæðilegi, Per Mertesackar, kom Arsenal yfir í fyrri hálfleik eftir sendingu Granit Xhaka en þetta var fyrsti leikur hans í byrjunarliði Arsenal í 18. mánuði.

Var staðan 1-0 í hálfleik og fékk Mesut Özil dauðafæri til að bæta við marki á 70. mínútu en Gomes í marki Watford gerði vel í að loka á hann en það reyndist heldur betur mikilvægt.

Eftir það keyrði Watford upp völlinn og fékk Richarlison vítaspyrnu dæmda á Hector Bellerin þótt að snertingin hafi verið lítil sem engin. Troy Deeney steig á vítapunktinn og jafnaði metin á 71. mínútu leiksins.

Í uppbótartíma var svo komið að Cleverley sem skoraði af stuttu færi eftir að Arsenal hafði bjargað nokkrum sinnum á stuttum tíma en það reyndist sigurmark leiksins.

Með sigrinum kemst Watford upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig en Arsenal situr í því sjötta með 13 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira