Enski boltinn

Stutt gaman hjá Aroni Einari sem fór meiddur af velli í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty
Íslendingaliðin Cardiff City og Bristol City náðu ekki að fagna sigri í ensku b-deildinni í fótbolta í kvöld en eru samt bæði í þremur efstu sætum deildarinnar.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kom seint inná en fór snemma af velli því hann meiddist í kvöld.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, var ósáttur við að íslenski landsliðsfyrirliðinn tæki þátt í landsleikjunum mikilvægu þar sem Ísland tryggði sig inn á HM í Rússlandi.

Aron Einar byrjaði á bekknum í kvöld en kom inná sem varamaður á 68. mínútu en þá var Cardiff City búið að vera undir frá 19. mínútu leiksins.

Aron Einar meiddist á ökkla á 84. mínútu leiksins en harkaði af sér og fór aftur inn á völlinn. Hann náði samt ekki að klára leikinn og Cardiff lék manni færri í uppbótartímanum.

Steve Cotterill stýrði liði Birmingham í fyrsta sinn og byrjaði á því að vinna topplið deildarinnar en liðið komst upp úr fallsæti með þessum sigri. Sigurmarkið skoraði Che Adams á 19. mínútu.

Þrátt fyrir tapið er Cardiff City áfram í efsta sæti deildarinnar en gæti misst það til Úlfanna sem eiga leik inni um helgina. Cardiff hafði aftur á móti náði fjögurra stiga forystu með sigri.

Hörður Björgvin Magnússon er áfram út í kuldanum hjá Lee Johnson, knattspyrnustjóra Bristol City, en Hörður Björgvin sat allan tímann á bekknum þegar Bristol City gerði markalaust jafntefli á heimavelli á móti Burton en stigið kom liðinu samt upp í þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×