Innlent

Er leiguíbúðin þín vændishús? Rannsóknarlögreglumaður hvetur fólk til að kanna bakgrunn leigjenda

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Snorri segir að fólk þurfi að vera meðvitað um það hvað gæti verið að gerast í leiguhúsnæði þeirra, lögregla hafi séð fjölskylduhúsnæði nýtt fyrir vændi og því þurfi allir að vera vakandi fyrir því.
Snorri segir að fólk þurfi að vera meðvitað um það hvað gæti verið að gerast í leiguhúsnæði þeirra, lögregla hafi séð fjölskylduhúsnæði nýtt fyrir vændi og því þurfi allir að vera vakandi fyrir því. Vísir/Anton
„Verið vakandi og kannið bakgrunn þeirra einstaklinga sem eru að leigja af ykkur íbúðir,“ segir Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður og sérfræðingur lögreglu í mansali. Snorri birti áhugaverðan pistil á Facebook síðu sinni í kvöld og varar fólk við því að vændi hafi færst í íbúðarhverfin og oft sé notað skammtímaleiguhúsnæði.

Í samtali við Vísi í kvöld segir Snorri að ef almenningur sé vel vakandi geti þeir oft séð merkin um að hugsanlega sé verið að stunda vændi í þeirra nágrenni. Þeir sem leigi út íbúðir sínar skuli hafa augun opin og láta vita ef grunur leikur á að einhver sé að leita sér að íbúð fyrir vændisstarfsemi.

Vilja oft borga með reiðufé

„Það er oft ekki mynd af aðilanum eða þá að aðilinn biður um að þetta sé ekki gert í gegnum leigusíðuna eða biður um að fá að borga í peningum. Hann vill gera þetta einhvern vegin öðruvísi heldur en venjulega. Stundum er hann alveg með eigin prófíl og gerir þetta eins og þarf að gera en það er svo oft að við heyrum að þeir eru að borga með peningum og jafnvel spyrja svo um að fá að framlengja.“

Í færslu sinni á Facebook lýsir Snorri aðstæðum þar sem mörg merki eru um að leiguíbúð sé notuð fyrir vændisstarfsemi. Í samtali við Vísi sagði hann að það væri kannski erfitt fyrir fólk að gera ítarlegt bakgrunnstékk á hugsanlegum leigjendum en oft væri hægt að sjá það á prófíl viðkomandi og samskiptunum við hann.

„Oft eru þetta gervileg nöfn, aðgangurinn virkar gervilegur og það er búið að setja bara einhverja mynd og eitthvað nafn. Oft er þetta nýr prófill með engri mynd og viðkomandi vill bara borga í peningum. Þetta hringir einhvern vegin öllum viðvörunarbjöllum.“

Mikilvægt að tilkynna

Snorri segir að það sé gríðarlega mikilvægt að fólk hafi samband, bæði við leigusíðuna og við lögreglu. Fólk á ekki að hika við að hafa líka samband við nágranna sína sem eru með íbúð á leigu ef stöðugur straumur er í hana eða eitthvað virðist vera óeðlilegt. Bendir hann líka á netfangið mansal@lrh.is fyrir vísbendingar og fyrirspurnir, ef um áríðandi tilkynningu er að ræða skuli fólk hringja í 112.

„Við erum með netfang þar sem hægt er að tilkynna beint um vændi og mansal eða koma til okkar upplýsingum. Vefsíðurnar hafa líka einhverja öryggisfulltrúa sem hægt er að hafa samband við, svo ekki verði aðrir fyrir þessu. Fólk þarf bara að hafa augun opin fyrir þessu, þetta er að gerast í kringum okkur og í miklu meira mæli en fólk gerir sér grein fyrir.“

Hér á landi er ólöglegt að kaupa vændi og hafa milligöngu um kaupin en sala er í raun heimil. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að á síðustu tíu árum hafa um 150 einstaklingar verið kærðir fyrir vændiskaup en á sama tíma hefur lögregla haft samband við seljendur og reynt að aðstoða þá.

„Við höfum farið og rætt við einstaklinga sem eru að gera sig út í vændi og séð aðstæðurnar sem þeir eru í. Þetta eru í sumum tilfellum ekki einu sinni miðsvæðis heldur íbúðir í hverfum borgarinnar, augljóst fjölskylduhúsnæði sem er kannski verið að leigja út í gegnum Airbnb. Ég held að fólk þurfi að hafa þetta í huga og líka þegar það er að gera upp við sig hvort það eigi að leigja út íbúðina sína. Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að þetta er einn óþægindaramminn í því.“

Snorri segir að oft hringi það viðvörunarbjöllum hjá fólki þegar einstaklingar vilja borga fyrir leiguna í reiðufé og helst ganga frá öllu fyrir utan leigumiðlunarsíðuna.vísir/ernir
Fer að miklu leiti fram í skammtímaleiguhúsnæði

Snorri hvetur fólk sem er að standa í því að leigja út íbúðir sínar að virða allar reglur í kringum síðurnar og hafa í huga að svona hlutir eru mjög algengir. Hann ítrekar að einstaklingur sem ætlar sér að leigja íbúð til að nota í vændi vil ekki vera rekjanlegur.

„Hann vill ekki að það verði til nein slóð um sig.“

Hann segir vændisstarfsemina hafa nánast alveg færst út af hótelum og er nú að miklu leiti að fara fram í skammtímaleiguhúsnæði.

„Þetta er rekstur sem menn vilja hafa langt undir radar og því erum við að sjá þetta í íbúðarhúsnæði þar sem enginn er að velta þessu fyrir sér. Svo er líka mikilvægt að hafa í huga að það er alltaf möguleiki að einstaklingur í vændi sé þolandi og neyddur í þessar aðstæður sem hann er í.  Þá getur verið að það sé einhver annar á bakvið bókunina en sá sem er að nýta sér hana.“

Mansal er einnig vaxandi vandamál á Íslandi og arðbær fyrir þá sem standa fyrir henni. Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá lögreglunni hvatti almenning til þess að vera meira meðvitaður um umhverfi sitt og merki um mansal í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði. „Þetta kann að vera í næstu íbúð, þetta eru Airbnb-íbúðir sem eru oft lánaðar og það er svolítil vændisstarfsemi sem fram fer í einhverjum þeirra íbúða.“

Sjá einnig: Airbnb-íbúðir oft tengdar mansali  

Snorri segir að fólk þurfi að vera meðvitað um það hvað gæti verið að gerast í leiguhúsnæði þeirra, lögregla hafi séð fjölskylduhúsnæði nýtt fyrir vændi og því þurfi allir að vera vakandi fyrir því.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Snorra í heild sinni:

Er leiguíbúðin þín vændishús?

Á næstu dögum, vikum eða mánuðum mun einhver áhugasamur kannski hafa samband við þig og óska eftir því að fá íbúðina þína leigða. Viðkomandi mun óska þess að dvelja í íbúðinni í nokkra daga, oftast nær 4-8 daga eða jafnvel lengur. Hann er reiðubúinn að greiða fyrir íbúð sem er vel staðsett miðsvæðis og jafnvel með aðgengi sem er ekki fyrir allra augum. Mögulega óskar hann eftir framlengingu eða bókar aftur mánuði síðar. Hann mun jafnvel biðja um að fá að greiða þér í peningum og segir að kreditkortið sitt virki ekki, þrátt fyrir að það gangi gegn reglum hjá leigumiðlunarvefsíðunni sem þú notar. Þú samþykkir engu að síður tilboðið og leigir þessum einstaklingi íbúðina þína. Eðli málsins samkvæmt hefur þú ekki hugmynd um hvað íbúðin þín er nýtt í og að sjálfsögðu er leigjanda frjálst að nota hana í samræmi við þau skilyrði sem þú setur.

Því miður er það svo að á Íslandi hefur vændi færst í aukana. Vændi sem jafnan var stundað á hótelherbergjum eða í öðrum gistirýmum hefur færst í íbúðarhverfi. Íbúðarhverfi þar sem börn eru að leik og lítið annað að sjá en fólk að fara í og úr vinnu.

Peningarnir sem þú móttekur fyrir leigunni eru ef til vill afrakstur vændis í einhverju af hinum Norðurlöndunum. Leigjandinn getur verið „dólgur“ eða aðili sem hagnýtir sér bágborna stöðu einstaklings og gerir hann út í vændi og skyndilega gætir þú verið farin að hýsa þolanda mansals án þess að hafa hugmynd um það. Fína íbúðin þín er skyndilega orðin að vændishúsi og þangað koma á bilinu fimm til tíu menn á dag til þess að kaupa vændi frá manneskju sem er jafnvel neydd til þess að selja líkama sinn.

VERIÐ VAKANDI OG KANNIÐ BAKGRUNN ÞEIRRA EINSTAKLINGA SEM ERU AÐ LEIGJA AF YKKUR ÍBÚÐIR!


Tengdar fréttir

Catalina auglýsir fylgdarþjónustu á ný

Lögregla hefur undanfarið látið loka nokkrum síðum á samfélagsmiðlum þar sem vændi er auglýst til sölu. Catalina Ncogo, sem var dæmd fyrir hórmang árið 2010, auglýsir nú fylgdarþjónustu sína á Snapchat. Lögregla segir fylgdarþjónustu vera dulbúið vændi.

Airbnb-íbúðir oft tengdar mansali

Alda Hrönn Jóhannsdóttir segir að mansalstilfellin á Íslandi séu fleiri en 20 og að grunur leiki á að börn hafi verið neydd í vasaþjófnað.

Vændi hefur aukist á Íslandi

Vændi er vaxandi starfsemi í uppgangi efnahagslífsins og vegna fjölda ferðamanna. Þetta segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni, en hún heldur utan um ráðstefnuna Þrælahald nútímans í dag sem fjallar um mansal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×