Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Vilja fórna sér fyrir Garðabæinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stjarnan vann glæsilegan sigur á KR í lokaleik annarar umferðar Domino's deild karla í körfubolta á föstudaginn.

Kjartan Atli Kjartansson og félagar í Domino's Körfuboltakvöldi tóku viðtal við Hrafn Kristjánsson, þjálfara Stjörnunnar, beint úr Ásgarði.

Bandaríski leikmaður Stjörnunnar, Collin Pryor, veiktist fyrir leikinn og gat ekki spilað með Stjörnunni.

„Það breytti heilmiklu. Við erum búnir að vera að byggja upp svolítið nýja leikfræði með hann í þristinum, sem að hefur búið til nýja varnaraðferð hjá okkur og í raun nýjan sóknarleik líka.“ sagði Hrafn.

„Því var kippt út bara dagi fyrir leik, þannig að við sáum fram á að fleygja öllu eða halda áfram með það sama og treysta Eysteini og Addó fyrir þessum líkamlegu physical hlutum. Þeir tóku það bara á sig og það var bara mjög gott.“

„Við þurfum líka að skoða það að við erum í útsláttarleik á mánudaginn,“ sagði Hrafn, en Stjarnan mætir úrvalsdeildarliði Hauka í 32-liða úrslitum Malt bikarsins á mánudagskvöld.

„Ef að ég hefði teflt honum fram í búning og hann hefði svo ekki skilað miklu, sem að hefði verið raunin því hann er algjörlega bensínlaus, þá hefði ég í rauninni sent KR-ingana upp á tærnar og það hefði unnið á móti okkur. Þannig að þetta var ekki erfið ákvörðun.“

Stjörnumenn voru börðust vel allan leikinn og náðu að mæta KR-ingum vel á öllum sviðum.

„Þetta er bara vinna sem byrjaði í einstaklingsfundum með leikmönnum eftir síðasta tímabil. Það hefur verið talað á milli okkar frá því að undirbúningstímabilið byrjaði að við viljum vera með lið sem lítur út fyrir að hafa gaman af hlutunum og vilja fórna sér fyrir Garðabæinn, og við viljum að þeir sem eru í stúkunni sjái það.“

Viðtalið í heildina má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×