Körfubolti

Martin öflugur í sigri | Haukur stigahæstur í stóru tapi

Martin Hermannsson átti skínandi leik í sigri sinna manna.
Martin Hermannsson átti skínandi leik í sigri sinna manna. Vísir/Getty
Martin Hermannsson var meðal stigahæstu manna í naumum 73-70 sigri Chalon-Reims á Boulazac í frönsku deildinni í dag en þetta var annar sigur Chalon í röð og sá þriðji í síðustu fjórum leikjum.

Gestirnir í Chalon-Reims byrjuðu leikinn vel og náðu strax tíu stiga forskoti að fyrsta leikhluta loknum. Liðin skiptust á stigum allan leikinn og voru heimamenn aldrei langt undan. Náði Boulazac að laga stöðuna heldur betur í lokaleikhlutanum en gestirnir fögnuðu sigrinum.

Martin var með tólf stig í leiknum á 32 mínútum en hann hitti úr fjórum vítaskotum og fjórum skotum innan teigsins. Tókst honum ekki að setja niður þriggja stiga körfu þrátt fyrir fjórar tilraunir en hann tók einnig þrjú fráköst.

Fyrr í dag fékk landsliðsfélagi hans Haukur Helgi Pálsson og liðsfélagar hans skell 62-86 á útivelli gegn Monaco en Haukur Helgi var atkvæðamestur í liði Cholet í leiknum.

Monaco náði strax góðu forskoti og leiddi með fjórtán stigum í hálfleik en Monaco hafði betur í öllum fjórum leikhlutunum í dag.

Haukur Helgi var stigahæstur í liði Cholet með 13 stig á 24. mínútum en hann hitti úr 5/7 skotum sínum í leiknum, þar af 2/4 fyrir utan vítalínuna og setti hann niður eina vítaskot sitt í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×