Innlent

Hjólaþjófur staðinn að verki í Laugarneshverfinu

Atli Ísleifsson skrifar
Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi hótað og hrækt á manninn sem tilkynnti málið til lögreglu.
Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi hótað og hrækt á manninn sem tilkynnti málið til lögreglu. Vísir/Getty
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók síðdegis í gær karlmann við Otrateig í Laugarneshverfi vegna gruns um þjófnað á reiðhjólum. Annar maður kom að manninum þar sem hann var að klippa lás á hjóli og hafði hann þá líklegast snúið aftur á staðinn þar sem annað hjól var þegar horfið.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi hótað og hrækt á manninn sem tilkynnti málið til lögreglu, en hinum grunaða var haldið niðri af manninum þar til lögregla kom á vettvang. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Þá segir að lögregla hafi handtekið karl og konu í bíl á Seltjarnarnesi en þau eru grunuð um vörslu fíkniefna og ölvun við akstur.  Voru þau bæði vistuð í fangageymslu lögreglu.

Á Eyjaslóð var maður handtekinn vegna gruns um eignaspjöll og var hann vistaður í fangageymslu.

Lögregla handtók einnig mann á heimili í Breiðholti þar sem hann var til vandræða og var hann færður í fangageymslu.

Þá stöðvaði lögregla nokkra ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur.

Loks var maður handtekinn á Kjalarnesi í gærkvöldi vegna gruns um líkamsárás. „Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Árásarþoli var farinn af vettvangi og voru áverkar sagðir minniháttar,“ segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×