Fótbolti

Ingvar varði víti en gat ekki komið í veg fyrir tap

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ingvar Jónsson varði víti í dag.
Ingvar Jónsson varði víti í dag. mynd/heimasíða sandefjord
Ingvar Jónsson varði víti en gat ekki komið í veg fyrir 0-2 tap gegn Haugesund á útivelli í norsku deildinni í dag en á sama tíma fékk Íslendingaliðið Aalesund stóran skell.

Ingvar var á sínum stað í byrjunarliði Sandefjord og hélt sínum mönnum inn í leiknum þegar korter var til leiksloka er hann varði vítaspyrnu Alexander Stolas en stuttu fyrir leikslok bætti Haugesund við öðru marki.

Var þetta þriðja tap Sandefjord í síðustu fjórum leikjum en þeir sitja í 10. sæti að 25 umferðum loknum með 33 stig en Haugesund er í 5. sæti með 39 stig.

Á sama tíma fékk Aalesund 1-5 skell á útivelli í Íslendingaslag gegn Valerenga en alls komu fjórir íslenskir leikmenn við sögu í leiknum.

Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson voru í byrjunarliði Aalesund í leiknum en Adam Örn Arnarson kom inn af bekknum í seinni hálfleik hjá gestunum líkt og Samúel Kári Friðjónsson hjá Valerenga.

Aalesund er áfram að berjast fyrir lífi sínu við botn deildarinnar í 14. sæti með 25. stig, tveimur stigum frá öruggu sæti en Valerenga skaust með sigrinum upp í 8. sæti með 33 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×