Innlent

Komu í veg fyrir tjón í Elliðaám

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Með skjótum viðbrögðum tókst að aftra meiriháttar tjóni þegar olía lak í Grófarlæk í Fossvogsdal í gær. Unnið verður að hreinsun lækjarins næstu daga, en heilbrigðisfulltrúi segir að blessunarlega hafi lítið af olíu borist niður í Elliðaár.

Ástæða slyssins var bilun í olíugildru hjá N1 við Engihjalla í Kópavogi. Bilunin olli því að umtalsvert magn smurolíu lak úr gildrunni og barst í lækinn. Þar sem slysið átti upptök sín í Kópavogi kom það á borð heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að ganga í málið. Heilbrigðisfulltrúi segir gott að ekki hafi farið verr, enda geti smurolía verið afar erfið við að eiga.

Grófarlækur rennur í Elliðaárnar, en þar er viðkvæmt lífríki sem illa þolir olíumengun. Gatnamálastjóri Kópavogsbæjar segir að tekist hafi að afstýra miklu tjóni með skjótum viðbrögðum. Þannig voru slökkviðliðsmenn og síðan fulltrúar bæjarins komnir á svæðið örskömmu eftir að tilkynning barst eftir hádegi í gær.

Lækurinn er nú lagður sérstökum dúkum sem ætlað er að sjúga í sig olíuna. Karl segir að í kjölfarið þurfi að fara í umfangsmeiri aðgerðir til að hreinsa olíu úr gróðri og jarðvegi, en mengun vegna lekans barst m.a. inn á einkalóð. Unnið verði að þessum framkvæmdum ásamt fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Orkuveitunni og Olíudreifingu.

Heilbrigðisfulltrúi bendir á að þrátt fyrir að í þessu tilfelli hafi einfaldlega verið um bilun að ræða sé full ástæða til að fara ávallt varlega við meðhöndlun olíu, enda sé hún afar mengandi spilliefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×