Innlent

Borgin bætir kynningu á nemakortum fyrir fötluð ungmenni

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ásta Ólafsdóttir og Haraldur sonur hennar við heimili þeirra mæðgina í Vesturbænum. Fréttablaðið/Eyþór
Ásta Ólafsdóttir og Haraldur sonur hennar við heimili þeirra mæðgina í Vesturbænum. Fréttablaðið/Eyþór
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að ítreka upplýsingar um afsláttarkort fyrir fatlaða nemendur til starfsfólks í Ferðaþjónustu fatlaðs fólks, til kynningar fyrir notendur þjónustunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu velferðarsviðs til Fréttablaðsins í tilefni umfjöllunar blaðsins síðastliðinn föstudag um hagstæð kjör á akstursþjónustu sem Reykjavíkurborg býður upp á fyrir fatlaða nemendur en voru ekki kynnt notendum.

Í frétt blaðsins var rætt við Ástu K. Ólafsdóttur, móður fatlaðs framhaldsskólanema, sem greiddi margfalt hærri fargjöld fyrir son sinn en stóðu til boða, vegna þess að ákveðið var að kynna þau ekki fyrir notendum á meðan þau voru í endurskoðun.

Í tilkynningunni kemur fram að borgin vildi að kortin yrðu kynnt á vefsíðu Strætó bs. og unnt yrði að sækja um þau þar. Strætó hafi hins vegar tekið ákvörðun um að kynna kortin ekki á sínum vef þar sem önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu buðu ekki upp á þessi kjör.

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að ráðgjafar borgarinnar í aksturs- og ferðaþjónustu hafi fengið upplýsingar um nemakortin eftir að velferðarráð tók ákvörðun í júní 2016 um að bjóða upp á þau fyrir fatlaða nemendur í framhalds- og háskólum. Þær upplýsingar hafa nú verið ítrekaðar til ráðgjafanna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×