Innlent

Rjúpnaveiði með sama sniði og síðustu ár

Sveinn Arnarsson skrifar
Rjúpan er að margra mati ómissandi hluti jólanna. Fréttablaðið/Getty
Rjúpan er að margra mati ómissandi hluti jólanna. Fréttablaðið/Getty
Rjúpnaveiðitímabilið hefst daginn fyrir kjördag, þann 27. október. Tímabilið í ár er eins og á því síðasta, þar sem veitt er fjórar samfelldar helgar frá föstudegi til sunnudags. Sigrún Magnúsdóttir ákvað árið 2016 að ef forsendur myndu lítið breytast yrði fyrirkomulagið eins til ársins 2019.

Miðað við fjölda veiðimanna síðustu ár er gert ráð fyrir að veiði hvers veiðimanns eigi að vera að meðaltali um 5-6 fuglar. Áfram er sölubann á rjúpu og fylgir Umhverfisstofnun því banni eftir.

Virk vöktun er með rjúpnastofninum og sér Náttúrufræðistofnun Íslands um hana og allar rannsóknir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á skráningu á rjúpuveiðinni og vinna því stofnanirnar saman að því að meta veiðiþol stofnsins. Rjúpur eru taldar á vorin á um 40 svæðum vítt og breitt um landið. Aldurshlutföll í stofninum eru metin síðsumars og á veiðitíma.

Stærð rjúpnastofnsins er mjög breytileg eftir árum og eftir árstíðum. Til að mynda er rjúpnastofninn að hausti allt að því fjórum sinnum stærri en hann er að vori. Veiðar á rjúpu voru bannaðar árin 2003 og 2004 en þá var stofnstærðin í sögulegu lágmarki. Allt frá þeim tíma hefur sölubann ríkt á afurðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×