Innlent

Starfs- og heimilismenn vinna að sláturgerðinni saman

Ingvar Þór Björnsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Það þykir góður siður að taka slátur á heimilum landsmanna á haustin enda hollur og ódýr maturÁ dvalarheimilinu Lundi á Hellu eru tekin 85 slátur þar sem starfsmenn og heimilismenn vinna að sláturgerðinni saman. Boðið er upp á sherrý og konfekt á meðan vinnan fer fram.

Það var margt um manninn í eldhúsinu á Lundi þegar starfsfólkið hrærði í slátrið og sá um að koma því í keppina. Heimilisfólkið sat fram í sal og saumaði fyrir. Á meðan gekk hjúkrunarforstjóri Lundar á milli fólksins og bauð upp á Sherrý og konfekt. Matráður Lundar sá um að hræra í keppina.

„Nú er ég að hræra saman lifur, haframjöl, salt og mjólk sem ég blanda saman áður en ég set rúgmjöl í,“ segir Inger Nielsen, yfirmatreiðslumaður á Lundi. „Svo þegar ég er búin að hræra þetta vel saman þá bæti ég mörinni í. Þá er þetta bara komið. Þetta er mjög ódýr og góður matur. Fólkið hér í húsinu er mjög hrifið af þessu. Við reynum að vera með þetta einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Yfir sumartímann gefum við fólki frí frá slátri,“ segir hún.

Hjúkrunarforstjórinn á Lundi segir sláturdaginn alltaf jafn skemmtilegan. „Þetta er samvinna. Starfsmenn mæta og svo heimilisfólkið. Núna eru krakkar úr skólanum með okkur. Það er bara gaman að því,“ segir Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir hjúkrunarforstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×