Viðskipti innlent

Arnór Gunnarsson ráðinn forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS

Hörður Ægisson skrifar
Arnór Gunnarsson var áður forstöðumaður hlutabréfa hjá Öldu sjóðum.
Arnór Gunnarsson var áður forstöðumaður hlutabréfa hjá Öldu sjóðum.
Arnór Gunnarsson, sem hefur verið forstöðumaður hlutabréfa hjá Öldu sjóðum frá árinu 2013, hefur verið ráðinn forstöðumaður fjárfestinga hjá tryggingafélaginu VÍS.

Í tilkynningu frá VÍS segir að ráðning hans sé hluti af þeim skipulagsbreytingum sem tilkynnt var um í síðasta mánuði og hafa það að markmiði að efla þjónustu við viðskiptavini og styðja við enn frekari vöxt félagsins.

Arnór, sem mun hefja störf hjá VÍS þann 1. desember næstkomandi, tekur við starfinu af Tryggva Guðbrandssyni sem var á meðal þeirra stjórnenda sem létu af störfum samhliða þeim skipulagsbreytingum sem ráðist var í hjá tryggingafélaginu. Með þeim var skipurit VÍS einfaldað til muna þar sem framkvæmdastjórum var fækkað úr sex í fjóra og þá var stjórnendum fækkað úr 33 í 26.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir í tilkynningu að „við hjá VÍS erum gríðarlega ánægð að hafa fengið Arnór til liðs við okkur og ég er þess fullviss að reynsla hans og hæfileikar munu reynast okkur vel í þeim verkefnum sem fram undan eru.“  

Arnór er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi sem Chartered Financial Analyst auk þess að vera löggiltur verðbréfamiðari. Áður en hann var hjá Öldu sjóðum starfaði Arnór sem forstöðumaður hlutabréfateymis Stefnis á árunum 2007 til 2013. Þá hefur hann einnig meðal annars verið forstöðumaður sjóðastýringar Rekstrarfélags Kaupþings og sjóðsstjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×