Erlent

Lena Headey grét vegna Harvey Weinstein

Samúel Karl Ólason skrifar
"Ég hló að þessu, ég var í sjokki, ég man að ég hugsaði að þetta hlyti að vera brandari. Ég sagði eitthvað á þá leið að það væri eins og að kyssa pabba minn.“
"Ég hló að þessu, ég var í sjokki, ég man að ég hugsaði að þetta hlyti að vera brandari. Ég sagði eitthvað á þá leið að það væri eins og að kyssa pabba minn.“ HBO

Leikkonan Lena Headey, sem er hvað þekktust fyrir að leika Cersei Lannister í Game of Thrones, segist hafa grátið vegna Harvey Weinstein. Gífurlegur fjöldi kvenna hafa sakað framleiðandann um kynferðislega áreitni og jafnvel nauðgun. Headey sagði frá samskiptum sínum við Weinstein á Twitter í dag.



Í tístum sínum segir Headey að hún hafi fyrst hitt Weinstein á kvikmyndahátíð í Feneyjum þar sem verið var að sýna Brothers Grimm og bætir við að á meðan tökum stóð hafi leikstjóri myndarinnar ítrekað níðst á henni.



Hún segir Weinstein hafa beðið sig um að ganga með sér um skeið og hann hafi gefið eitthvað kynferðislegt í skyn.



„Ég hló að þessu, ég var í sjokki, ég man að ég hugsaði að þetta hlyti að vera brandari. Ég sagði eitthvað á þá leið að það væri eins og að kyssa pabba minn.“



Þá segir hún að hún hafi stungið upp á því að þau færu til baka. Eftir það hafi hún aldrei fengið tilboð um að leika í annarri kvikmynd frá Miramax, fyrirtæki Weinstein bræðranna.



Þau hittust aftur, árum seinna í Los Angeles. Headey segir að hún hafi verið staðráðin í því að leyfa Weinstein ekki að komast upp með neitt. Hún hafði trú á því að hann myndi virða mörk hennar og að mögulega vildi hann ræða eitthvað atvinnutengt á morgunverðarfundi þeirra.



Í fyrstu ræddu þau eingöngu um kvikmyndir og kvikmyndagerð en hún segir Weinstein fljótt hafa spurt hana út í ástarlíf hennar. Hún hafi þó snúið samtalinu aftur að einhverju ópersónulegra. Skömmu seinna hafi hann beðið hana um að koma upp á hótelherbergi þar sem hann vildi sýna henni handrit að kvikmynd.



„Við gengum að lyftunni og andrúmsloftið breyttist, allur líkami minn var í viðbragðsstöðu og lyftan var á uppleið. Ég sagði við Harvey: Ég hef ekki áhuga á öðru en vinnu, ekki halda að ég hafi komið með þér vegna annarrar ástæðu. Það er ekkert að fara að gerast.“



Headey segist ekki vita af hverju hún hafi fundið þörf til að segja þetta en hún hafi þurft þess.



Þá hafi Weinstein orðið reiður og nánast ýtt henni að hurðinni að herbergi hans. Lykillinn hafi hins vegar ekki virkað og hann hafi dregið hana aftur niður og út, borgað fyrir bíl hennar og hvíslað að henni: „Ekki segja neinum frá þessu.“



„Ég settist upp í bíl og grét.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×