Innlent

Hvassviðri í kortunum í nótt og á morgun

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Hviður gætu farið yfir 30 m/s.
Hviður gætu farið yfir 30 m/s. Vísir/Vilhelm
Spáð er hviðóttum vindi á Reykjanesbraut, Kjalarnesi, við Hafnarfjall, á norðanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum í kvöld og á morgun. Hviður gætu farið yfir 30 metra á sekúndu. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er þegar farið að hvessa undir Eyjafjöllum en í kvöld mældust hviður allt að 22 metrar á sekúndu á svæðinu.

Hviður fóru að sama skapi upp í 22 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli fyrr í kvöld og mun vindurinn líkast til ná svipuðum styrk í nótt á þeim slóðum.

Vindhraðinn fer vaxandi með kvöldinu og farið verður að blása allhressilega í nótt. Spáð er áframhaldandi hvassviðri í fyrramálið og eitthvað fram eftir degi.

Að sögn veðurfræðings mun líkast til rigna á köflum en ekki er útlit fyrir hálku. Hann biðlar til fólks um að sýna fyllstu aðgát við akstur húsbíla og bifreiða með tengivögnum. Ekki er búist við truflun á samgöngum að öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×