Erlent

Vongóð þrátt fyrir mannskæðustu árás ársins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svona var um að litast í Paktia eftir árás Talíbana í gær.
Svona var um að litast í Paktia eftir árás Talíbana í gær. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 74 liggja í valnum eftir að Talíbanar í Afganistan gerðu árásir á nokkrum stöðum í landinu á sama tíma í gær. Hundruð eru særð að auki og á meðal hinna látnu er háttsettur lögreglustjóri. Hann féll í mannskæðustu árásinni sem gerð var á lögreglustöð í borginni Gardez, þar sem tuttugu og einn lögreglumaður lét lífið og fjörutíu og átta særðust.

Margir óbreyttir borgarar voru í byggingunni þegar árásin var gerð en þangað leggur fólk leið sína til að endurnýja vegabréfin sín. Talið er að tuttugu almennir borgarar hafi fallið í þeirri árás og rúmlega hundrað liggja sárir.

Tveimur bílum, hlöðnum sprengiefni, var ekið á lögreglustöðina og í kjölfarið fylgdi hópur vopnaðra manna, klæddir sprengjubeltum, sem skaut á allt sem fyrir varð. Talið er að þrettán árásarmenn hafi fallið.

Starfandi innanríkisráðherra landsins segir árásirnar í gær vera þær stærstu sem gerðar hafa verið á þessu ári. Þrátt fyrir umfang árásarinnar í gær segjast stjórnvöld hafa mikla trú á getu sinni til að „berjast við hryðjuverkamenn og eyða þeim úr Afganistan.“ Sveitir Talíbana hafi beðið mikla ósigra gegn stjórnarhernum síðustu mánuði og væru með þessum aðgerðum að reyna að ná fram hefndnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×