Körfubolti

Titilvörnin hófst með tapi | LeBron frábær í sigri á Boston

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Harden og Draymond Green berjast um boltann í leik Houston og Golden State.
James Harden og Draymond Green berjast um boltann í leik Houston og Golden State. vísir/getty
Tímabilið í NBA-deildinni hófst í nótt með tveimur stórleikjum.

Meistarar Golden State Warriors þurftu að sætta sig við tap, 121-122, fyrir Houston Rockets á heimavelli.

PJ Tucker tryggði Houston sigurinn með tveimur vítaskotum undir lokin. Stephen Curry tók lokaskot Golden State en það geigaði.

James Harden var atkvæðamestur í liði Houston með 27 stig, sex fráköst og 10 stoðsendingar. Eric Gordon skoraði 24 stig og Tucker 20. Chris Paul, sem lék sinn fyrsta leik fyrir Houston í nótt, skoraði aðeins fjögur stig en tók átta fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Nick Young var stigahæstur hjá Golden State með 23 stig. Curry kom næstur með 22 stig. Draymond Green skoraði níu stig, tók 11 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Cleveland Cavaliers hrósaði sigri gegn Boston Celtics, 102-99.

Boston varð fyrir áfalli strax eftir fimm mínútur þegar Gordon Hayward ökklabrotnaði í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Leikmönnum liðanna var brugðið og samherjar Haywards báðu fyrir honum.

LeBron James átti frábæran leik fyrir Cleveland. Hann skoraði 29 stig, tók 16 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Kevin Love skoraði 15 stig og tók 11 fráköst. Derrick Rose og Dwayne Wade spiluðu sinn fyrsta leik með Cleveland og skiluðu samtals 22 stigum.

Jaylen Brown skoraði 25 stig fyrir Boston og Kyrie Irving skoraði 22 stig og gaf 10 stoðsendingar gegn sínum gömlu félögum.

Úrslitin í nótt:

Golden State 121-122 Houston

Cleveland 102-99 Boston

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×