Lífið

PJ Karsjó verður frumsýndur í bílabíói við Perluna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Pétur Jóhann Sigfússon fer af stað með þáttinn PJ Karsjó á Stöð 2 á fimmtudag klukkan 20:55.
Pétur Jóhann Sigfússon fer af stað með þáttinn PJ Karsjó á Stöð 2 á fimmtudag klukkan 20:55.
Pétur Jóhann Sigfússon fer af stað með þáttinn PJ Karsjó á Stöð 2 á fimmtudagskvöld. Fyrsti þátturinn af þessum glænýja bílaþætti verður frumsýndur í bílabíói við Perluna í Reykjavík í kvöld klukkan 20. Boðsgestir munu leggja fyrir framan Perluna í þessu skemmtilega bílabíói.

„Við erum með tvo mjög öfluga myndvarpa sem við setjum fyrir utan Perluna og vörpum svo risastórri mynd á tvo tanka,“ segir Jóhann Örn Ólafsson sem sér um að skipuleggja þennan skemmtilega viðburð.

Fyrsti þáttur PJ Karsjó verður sýndur utan á tveimur tönkum Perlunnar og gestirnir í bílabíóinu hlusta á hljóðið í gegnum ákveðna tíðni á útvarpinu í bílnum sínum en það er líka hljóðkerfi á staðnum svo þeir sem eru úti geti líka hlustað.

Enn er möguleiki á reyna að vinna boðsmiða fyrir bíla en miðaverðir verða á staðnum og nauðsynlegt að mæta með miða til þess að leggja bílnum á stæðið í bíóinu. Allir sem vilja mega þó auðvitað mæta fótgangandi og sitja í grasinu. Útvarpsstöðvar 365 gefa miða til klukkan 16 í dag og svo er einnig hægt að reyna að ná sér í miða á Facebook-síðu Stöðvar 2.

„Við vildum gera eitthvað öðruvísi fyrir þessa sérstöku þætti. Ég rúntaði svo um bæinn til þess að finna stað þar sem hægt væri að setja upp bílabíó án þess að vera með eitthvað risastórt tjald í rokinu. Perlann er mjög flottur staður fyrir þetta og lítil ljósmengun þar sem við slökkvum á einhverjum ljósastaurum á svæðinu,“ útskýrir Jóhann.

PJ Karsjó er alls ekki týpískur bílaumfjöllunarþáttur og gestirnir verða jafn ólíkir og þeir eru margir. Þættirnir verða níu samtals. 

„Þetta er án efa það skemmtilegasta sem ég hef gert, með fullri virðingu fyrir öllu öðru. Ég hef bara svo óendanlega gaman af öllum farartækjum. Hvort sem það er þyrla, bátur, skip eða bíll,“ sagði Pétur Jóhann um PJ Karsjó í viðtali hér á Lífinu.

„Við stefnum á það að búa til eins mikla skemmtun og við getum. Í grunninn er þetta kannski um farartæki en við erum ekkert bara að prófa flotta bíla, þó það sé eitthvað svoleiðis.“

Fyrsti þátturinn af PJ Karsjó verður sýndur á fimmtudagskvöld klukkan 20:55 á Stöð 2. 



Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×