Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 94-80 | Haukar á toppnum

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Helena Sverrisdóttir hefur byrjað tímabilið vel.
Helena Sverrisdóttir hefur byrjað tímabilið vel. vísir/ernir
Haukar og Valur mættust í kvöld í toppslag Dominos-deildar kvenna en fyrir leik voru bæði lið með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðir deildarinnar.

Haukar voru sterkara liðið í gegnum leikinn en er flautað var til hálfleiks var staðan 49-42, heimastúlkum í vil. Þær tóku svo öll völd í þriðja leikhluta og juku forskotið úr sjö stigum í 16 stiga mun.

Valur gerði í raun aldrei almennilega atlögu að Haukum en um miðbik fjórða leikhluta komust þær hvað næst er þær minnkuðu muninn í 9 stig.

Lokatölur 94-80, Haukum í vil sem verðskulduðu sigurinn sinn í kvöld, skuldlaust.

Afhverju unnu Haukar?

Stelpurnar í Haukum voru einfaldlega sterkari í gegnum allan leikinn. Á meðan Valur náði upp ágætis skriði hér og þar í leiknum féll leikur þeirra ávallt niður á endanum.

Leikur Hauka var því jafngóður í gegnum allan leikinn á meðan leikur Vals var mjög misjafn. Ýmist góður en líka alltof oft alls ekki nógu góður.

Hverjar stóðu upp úr?

Sú sem ber fyrst að nefna er Helena Sverrisdóttir, leikmaður Hauka, en hún gjörsamlega átti völlinn og innsiglaði þrennu sína í þriðja leikhluta.

Helena endaði leikinn með 13 fráköst, 16 stoðsendingar og 11 stig. Klárlega besti leikmaður vallarins í kvöld.

Rósa Björk hjá Haukum læddist eiginlega meðfram veggjum en á meðan maður tók aldrei sérstaklega mikið eftir henni þá endaði hún leikinn stigahæst allra með 25 stig. Frábær leikur hjá henni.

Hjá Val var ekki mikið um leikmenn sem stóðu upp úr. Alexandra Peterson endaði með 24 stig en hún steig loks upp þegar það var alltof seint en eftir fyrstu tvo leikhlutana var hún með einungis 2 stig.

Hvað gekk illa?

Val gekk illa í varnarleiknum í kvöld en Darri, þjálfari Vals, benti réttilega á eftir leik í viðtali að 80 stig ættu að reynast nóg til að vinna en að fá á sig 94 stig væri hreinlega alltof mikið.

Haukar voru mun duglegri við að ná fráköstum og oft fannst mér það einfaldlega stafa af því að Haukar börðust af meiri krafti fyrir lausum boltum en Valur.

Ingvar Þór: Frábært að fá Helenu aftur

Ingvar Þór, þjálfari Hauka, var að vonum ánægður eftir góðan sigur liðsins á Val í toppslag Dominos deild kvenna.

„Mér fannst við bara mæta virkilega klárar. Vorum tilbúnar að berjast við þær um fráköstin og við létum boltann ganga vel.“

Helena Sverrisdóttir átti frábæran leik og var með 16 stoðsendingar, 13 fráköst og 11 stig eða svokallaða þrennu og var Ingvar ekki lengi að nefna hana á nafn.

„Ég held hún hafi verið með átta eða níu stoðsendingar í fyrri hálfleik þannig við vitum að hún finnur stelpurnar í færum og svo átti Rósa Björk líka stjörnuleik.“

Helena var í barneignarfríi síðasta vetur og viðurkennir Ingvar að það sé gott að fá hana aftur inn á völlinn.

„Það er auðvitað frábært að fá hana aftur. Hún gefur stelpunum mikið. Henni er nákvæmlega sama hvort hún skori 3 eða 30 stig. Hún er bara í þessu fyrir liðið.“

Aðspurður hvernig tilfinningin væri að vera eina taplausa liðið á toppnum með fullt hús stiga.

„Það er auðvitað stutt liðið af mótinu en það er alltaf gott að vera taplaus.“

Darri Freyr: Verðum að gera þeim erfiðara fyrir

Darri Freyr, þjálfari Vals, var svekktur í leikslok með fyrsta tap Vals í vetur í Dominos deild kvenna. Hann segir liðið ekki hafa náð að loka á Helenu eins og lagt var upp með fyrir leik.

„Við lögðum mikla áherslu á fyrir leik að gera hlutina eins erfiða og hægt var fyrir Helenu. Hún nær hinsvegar að fá allt liðið með sér með góðri spilamennsku og þær stigu upp og hittu úr sínum skotum. Þær eiga hrós skilið fyrir það.“

Darri var á því að varnarleikurinn hafi orðið liðinu af falli í dag.

„Við verðum að gera þeim erfiðara fyrir. Þær skora 94 stig sem er alltof mikið af stigum. Að skora var ekki vandamál í þessum leik. 80 stig eiga bara að duga til að vinna.“

Helena Sverrisdóttir: Eigum mikið inni

„Já hægt og rólega,“ sagði Helena Sverrisdóttir, leikmaður Hauka, er hún var spurð hvort hún væri nálægt því að finna sitt gamla form en hún átti sannkallaðan stórleik í kvöld.

„Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og það er svo mikið af góðum liðum í deildinni þannig allir leikir eru svo mikilvægir,” sagði Helena en eftir sigurinn er Haukar eina taplausa liðið í deildinni eftir fjórar umferðir.

„Okkur finnst við eiga svo mikið inni og við vorum frábærar í dag. Nú verðum við bara að halda áfram.“

En ætla Haukar sér ekki bara að eigna sér toppsætið í deildinni? „Það er allavega planið. Ef við spilum svona áfram þá verður erfitt að stoppa okkur.“

Úrslit kvöldsins:


Haukar-Valur 94-80 (27-22, 22-20, 22-13, 23-25)

Haukar: Cherise Michelle Daniel 26/8 fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir 25/9 fráköst, Dýrfinna Arnardóttir 16, Þóra Kristín Jónsdóttir 14/5 fráköst/5 stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir 11/13 fráköst/16 stoðsendingar/5 stolnir, Ragnheiður Björk Einarsdóttir 2/4 fráköst, Fanney Ragnarsdóttir 0, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 0, Anna Lóa Óskarsdóttir 0, Hrefna Ottósdóttir 0, Magdalena Gísladóttir 0, Sigrún Björg Ólafsdóttir 0.

Valur: Alexandra Petersen 24/6 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 12/7 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 10, Ragnheiður Benónísdóttir 8/4 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 7, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 6, Dagbjört Samúelsdóttir 0, Ásta Júlía Grímsdóttir 0.

Njarðvík-Snæfell 63-80 (23-23, 17-21, 8-20, 15-16)

Njarðvík: Shalonda R. Winton 24/15 fráköst, María Jónsdóttir 10/6 fráköst, Björk Gunnarsdótir 8, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 6/4 fráköst, Hrund Skúladóttir 5/4 fráköst, Hulda Bergsteinsdóttir 4, Linda Þórdís Barðdal Róbertsdóttir 3, Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Soffía Rún Skúladóttir 0, Aníta Carter Kristmundsdóttir 0, Árnína Lena Rúnarsdóttir 0, Erna Freydís Traustadóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 23/13 fráköst/5 stoðsendingar, Berglind Gunnarsdóttir 22/8 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 11, María Björnsdóttir 9/4 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir 6/9 fráköst, Andrea Bjort Olafsdottir 4/8 fráköst, Thelma Hinriksdóttir 3, Anna Soffía Lárusdóttir 2, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0, Inga Rósa Jónsdóttir 0.

Skallagrímur-Breiðablik 78-69 (23-12, 12-20, 21-16, 22-21)

Skallagrímur: Carmen Tyson-Thomas 22/19 fráköst/5 stoðsendingar, Sigrún Sjöfn  Ámundadóttir 19/10 fráköst/10 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 19/10 fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 14/4 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 2/6 fráköst, Bríet Lilja Sigurðardóttir 2, Þórunn Birta Þórðardóttir 0, Arna Hrönn Ámundaóttir 0, Karen Munda Jónsdóttir 0.

Breiðablik: Ivory Crawford 24/11 fráköst/6 stoðsendingar, Sóllilja Bjarnadóttir 21, Telma Lind Ásgeirsdóttir 8/6 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 8/8 fráköst/3 varin skot, Auður Íris Ólafsdóttir 5, Marín Laufey Davíðsdóttir 2, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 1, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Arndís Þóra Þórisdóttir 0, Kristín Rós Sigurðardóttir 0, Hafrún Erna Haraldsdóttir 0, Melkorka Sól Péturdóttir 0.

Stjarnan-Keflavík 81-63 (28-16, 15-14, 21-12, 17-21)

Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez 31/11 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 14/8 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 11/4 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 11/8 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 8/10 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 6/4 fráköst, Eyrún Embla Jónsdóttir 0, Valdís Ósk Óladóttir 0, Linda Marín Kristjánsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0/4 fráköst, Rakel Rós Ágústsdóttir 0.

Keflavík: Birna Valgerður Benónýsdóttir 18/4 fráköst/4 varin skot, Brittanny Dinkins 9/8 fráköst/8 stoðsendingar, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 7/8 fráköst/3 varin skot, Kamilla Sól Viktorsdóttir 6, Thelma Dís Ágústsdóttir 6, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Elsa Albertsdóttir 4, Þóranna Kika Hodge-Carr 4/5 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 3, Svanhvít Ósk Snorradóttir 1, Irena Sól Jónsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira