Körfubolti

Dagur Kár í banni í leiknum á móti bróður sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson.
Dagur Kár Jónsson. Vísir/Anton
Það verður ekkert að því að bræðurnir Dagur Kár og Daði Lár Jónssynir mætist í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld.

Lið þeirra bræðra, Keflavík og Grindavík, mætast í TM höllinni í Keflavík í þriðju umferð deildarinnar. Grindavíkurliðið hefur unnið báða sína leiki en Keflvíkingar eru með einn sigur og eitt tap.

Dagur Kár Jónsson var rekinn út úr húsi í leik Grindavíkur gegn Haukum í síðustu umferð og Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur nú dæmt hann í eins leiks bann vegna þessa.

Grindvíkingar munu sakna hins 22 ára gamla Dags Kár í þessum leik en hann er með 13,0 stig og 6,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu tveimur umferðunum.

Það voru margir spenntir fyrir því að sjá bræðurna eigast við enda er stoðsendingahæstu leikmenn sinna liða í upphafi móts og báðir komnir í stór hlutverk hjá þessum Suðurnesjarisum.

Daði Lár Jónsson, sem er 20 ára og tveimur árum yngri en Dagur, hefur byrjað tímabilið vel með Keflavík en hann er með 9,5 stig, 5,5 fráköst og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum.

Daði Lár skoraði meðal annars tvær ævintýralegar flautukörfur í fyrsta leiknum á móti Val þar sem hann var með 17 stig og 7 stoðsendingar.

Dagur Kár og Daði Lár eru báðir uppaldir í Stjörnunni en spila nú með þeim liðum sem faðir þeirra, Jón Kr. Gíslason, lék með á glæsilegum ferli sínum.

Það verður hinsvegar bræðraslagur í Domino´s deild karla í kvöld því það mætast bræður í leik Tindastóls og Þórs frá Akureyri. Það eru þeir Ragnar og Viðar Ágústssynir, Viðar í Tindastóli og Ragnar í Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×