Handbolti

Geir um stóra Arons málið: Höfum áður þurft að vera án hans

Stefán Árni Pálsson skrifar
Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson er samningsbundinn ungverska liðinu Vezprem. Aron vill ekki spila fyrir liðið og fær ekki leikheimild með öðru liði.

Íslenska handboltalandsliðið býr sig undir Evrópumótið í Króatíu á næsta ári. Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, spurði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfara, út í stöðuna á Aroni á dögunum.

„Þetta er auðvitað erfitt og leiðinlegt mál,“ segir Geir Sveinsson. „Því miður er þessi staða komin upp og það eru allir að reyna leysa þessa stöðu en hún er því miður bara flókin. Ég hafði gefið mér það að það gæti kannski tekið tvo mánuði að leysa úr þessu, en ég held að við séum núna komin á þriðja mánuð og það er því miður ekki komin nein niðurstaða.“

Geir segir að þetta sé mjög slæmt mál og þá sérstaklega fyrir Aron sjálfan.

„Ég hef trú á því og vona innilega að þetta leysist sem allra fyrst. Ef Aron nær ekki að æfa handbolta reglulega þá er hann auðvitað í síðri stöðu. Hinsvegar hefur Aron verið duglegur við það að halda sér í góðu líkamlegu ástandi og ég treysti honum fullkomlega fyrir því. Sá þáttur er í lagi en það er svo sem ekkert við því að gera ef einhver maður dettur út. Það er bara svona svipað og ef viðkomandi er meiddur. Við vorum án hans í Frakklandi og það var bara sú staða sem við lentum í og þá urðum við bara að leysa það.“

Hér að ofan má sjá viðtalið við Geir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×