Körfubolti

Kevin Love verður byrjunarliðsmiðherji Cavaliers í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Love.
Kevin Love. Vísir/Getty
Cleveland Cavaliers byrjar leikina með lávaxnara lið en áður á komandi NBA-tímabili en þeir hafa nú gefið það út að Kevin Love verður byrjunarliðsmiðherji liðsins í vetur.

Kevin Love hefur hingað til verið að spilaí stöðu fjarkans í liði Cleveland og Tristan Thompson hefur verið í miðherjahlutverkinu.

Það verður væntanlega hlutverk Tristan Thompson núna að koma inn af bekknum en frammistaða hans í lokaúrslitunum síðasta sumar olli miklum vonbrigðum.

Það er þó ekki það sem aðalástæðan fyrir þessum skiptum heldur frekar það að NBA-deildin er að þróast meira út í það að spila hraðari bolta þar sem allir leikmenn geta skotið fyrir utan.

Samkvæmt fréttum úr herbúðum Cleveland Cavaliers þá mun Jae Crowder, sem kom frá Boston í Kyrie Irving skiptunum, byrja sem fjarki en auk hans og Love verða í byrjunarliðinu þeir Derrick Rose, Dwyane Wade og LeBron James. NBC Sports segir frá.

Tristan Thompson og J.R. Smith, sem hafa báðir verið mikið í byrjunarliði Cleveland síðustu ár, verða síðan fyrstu tveir inn af bekknum.

Byrjunarliðið mun síðan líklega breytast um áramótin þegar Isaiah Thomas kemur inn í leikstjórnendastöðuna fyrir Derrick Rose. Isaiah Thomas er að ná sér eftir aðgerð á mjöðm en búist er við honum í upphafi næsta árs.

Það gekk vel hjá Cleveland að spila með lítið lið á síðasta tímabili en þeir gerðu þó ekki mikið af því að nota þá Kyrie Irving, J.R. Smith, LeBron James, Channing Frye, og Kevin Love saman á vellinum.  

Undirbúningstímabilið er að hefjast í NBA-deildinni en sjálft tímabilið hefst síðan seinna í þessum mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×