Erlent

Fjöldamorðið í Las Vegas virðist hafa verið þaulskipulagt

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk hefur skilið eftir kerti og blóm til að minnast fórnarlambanna í Las Vegas.
Fólk hefur skilið eftir kerti og blóm til að minnast fórnarlambanna í Las Vegas. Vísir/AFP
Maðurinn sem skaut að minnsta kosti 59 til bana og særði á sjötta hundrað í Las Vegas í Bandaríkjunum í fyrrakvöld virðist hafa undirbúið morðin vandlega. Lögreglan varar við að tala látinna geti hækkað.

Í frétt Washington Post kemur fram að morðinginn innritaði sig á Mandalay Bay-hótelið á fimmtudag, þremur dögum fyrir blóðbaðið. Hann hafi flutt 23 byssur í tíu ferðatöskum upp á herbergið án þess að það vekti grunsemdir starfsfólks. Á meðal skotvopnanna var rifill sem líkist AK-47-hríðskotabyssunni. Með honum fylgdi standur til að halda honum stöðugum.

Morðinginn kom einnig fyrir myndavélum sem hann stjórnaði með spjaldtölvu til að vera tilbúinn þegar lögreglumenn réðust þangað inn. Það er einnig talin vísbending um að morðæðið hafi verið þaulskipulagt.

Áður en lögreglumenn komust að honum hafði hann stytt sér aldur með byssu. Hann er sagður hafa skotið öryggisvörð í fótinn í gegnum hurð hótelherbergisins áður.

Auk skotvopnanna sem fundust á hótelherberginu þaðan sem morðinginn skaut á tónleikagesti úti á götu hafa nítján byssur til viðbótar fundist á heimili hans í bænum Mesquite í Nevada-ríki. Þar fundust einnig skotfæri og efni til sprengjugerðar.

Enn liggur ekkert fyrir um hvað manninum, sem var á sjötugsaldri, gekk til.

Joe Lombardo, sýslumaður Clark-sýslu, sem Las Vegas tilheyrir, sagði á blaðamannafundi í dag að tala látinna gæti hækkað enda særðust fleiri en fimm hundruð manns í skotárásinni. Stjórnendur tveggja sjúkrahúsa á svæðinu segja að 68 manns liggi þar inni eftir árásina, þar af séu 33 í lífshættu.


Tengdar fréttir

Segir Paddock hafa verið sjúkan

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn í dag að hann myndi hefja umræðu um lög Bandaríkjanna varðandi byssueign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×