Erlent

Grunar að fjöldamorðinginn í Las Vegas hafi átt sér vitorðsmann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stephen Paddock var 64 ára gamall. Lögreglan er engu nær um ástæður þess að hann hóf skothríð úr herbergi sínu á Mandalay-hótelinu í Las Vegas á sunnudagskvöld.
Stephen Paddock var 64 ára gamall. Lögreglan er engu nær um ástæður þess að hann hóf skothríð úr herbergi sínu á Mandalay-hótelinu í Las Vegas á sunnudagskvöld.
Lögregluyfirvöld í Las Vegas segja sönnunargögn benda til þess að Stephen Paddock, fjöldamorðinginn sem myrti 58 manns í borginni á sunnudagskvöld, hafi ætlað að flýja vettvang í stað þess að skjóta sig. Þannig telur lögreglan að það hafi ekki verið áætlun hans að fremja sjálfsvíg, líkt og hann gerði, heldur að lifa árásina af og flýja af vettvangi.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Joseph Lombardo, lögreglustjóra Las Vegas, í nótt. Hann sagði að svo virtist sem Paddock hefði verið í áratugi að sanka að sér vopnum en bara á síðastliðnu ári keypti hann 33 skotvopn.

Lögregluna grunar að hann hafi átt sér vitorðsmann sem hafi hjálpað honum að undirbúa skotárásina en hafa þó ekki neinar tilgátur um hver það gæti verið. Þá hafði Paddock leigt sér aðra hótelíbúð í Las Vegas með útsýni yfir aðra tónlistarhátíðina helgina áður en hann lét til skarar skríða.

Lögregluyfirvöld telja að það sé ekki Marilou Danley, sambýliskona Paddock. Hún var erlendis þegar hann gerði árásina og sagði lögreglu að hún hefði ekki haft hugmynd um áætlanir hans.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að líf Paddock var sveipað leyndarhjúpi svo ákaflega lítið er vitað um manninn og ekkert um ástæður blóðbaðsins.

Meira en 100 rannsóknarlögreglumenn hafa síðastliðna þrjá daga farið í gegnum líf Paddock og skoðað nánast hvert smáatriði, en án mikils árangurs.

„Það sem við vitum er að Paddock var maður sem var áratugum saman að sanka að sér vopnum og skotfærum. Þá lifði hann lífi sem er sveipað leyndarhjúp. Við erum engu nær um það hvað það var sem leiddi til þess að hann gerði þessa árás,“ sagði Lombardo á blaðamannafundinum í gær.

Skotárásin stóð í níu til ellefu mínútur að sögn Lombardo. Auk þeirra tuga sem Paddock myrti særði hann hátt í 500 manns.

Byggt á fréttum Guardian og CNN.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×